„Allt í einu sökk báturinn og allir drukknuðu“

Síðasta sunnudag var afhjúpaður minnisvarði við Æðarsteinsvita um tíu manns sem létust í mannskæðasta sjóslysi sem heimildir eru til um við Djúpavog. Slysið varð að kvöldi 22. september árið 1872 þegar bátur á leið frá Teigarhorni út á Djúpavog fórst. Vitinn er jafnframt 100 ára í ár.

Hin 96 ára gamla Guðrún Guðjónsdóttir, elsti íbúi Djúpavogs, afhjúpaði minningarskjöld á vitanum og Andri Jón Sigurðsson, fimm ára sjómannssonur, afhjúpaði skipslíkan sem Guðjón Sigurðsson hannaði.

Í sjóslysinu fórust fimm barna Níelsar Weywadt, kaupmanns á Djúpavogi. Hann hafði keypt Teigarhorn þremur árum fyrr og var hópurinn á leið út á Djúpavog eftir sumardvölina inn frá.

„Mikið sorgartilfelli kom fyrir gamla Weywadt,“ segir í bréfi Jóns Ásmundssonar Johnsen, sýslumannsins í Suður-Múlasýslu til kunningja síns síðar þetta haust.

„Þau voru að sigla að gamni sínu, en allt í einu sökk báturinn, og allir drukknuðu,“ er lýsing sýslumanns á slysinu við Æðarstein sem rifjuð er upp í Austurglugga vikunnar.

Hópur áhugafólks á Djúpavogi hefur staðið að uppsetningu minnisvarðanna til að varðveita söguna minningu þeirra sem fórust. Áhugahópurinn hefur síðan valið sér sitt næsta verk sem er gerð minnismerki um sjómenn frá Djúpavogi sem látist hafa við störf.

Frá athöfninni á sunnudag. Mynd: Maciej Pietrunko

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.