Alltaf fjölgar þátttakendum í gönguvikunni Á fætur í Fjarðabyggð

„Þeim fjölgar ár frá ári sem taka þátt í þessu með okkur og þar bæði um heimamenn og aðkomufólk að ræða,“ segir Sævar Guðjónsson, einn skipuleggjandi gönguvikunnar Á fætur í Fjarðabyggð, sem nú er í fullum gangi.

Um vikulangan viðburð er að ræða en lokadagurinn er á laugardaginn kemur þegar blásið verður í heljarinnar lokakvöldvöku og sem endranær koma sjóræningar við sögu lokadaginn. Þetta er fimmtánda árið í röð sem gönguvikan fer fram í sveitarfélaginu en það er Ferðafélag Fjarðamanna auk Ferðaþjónustunnar Mjóeyri sem hefur haft veg og vanda af þessu ævintýri.

Gönguvikan skiptist í tvo hluta daglega. Annars vegar er gengið lengri ferðir á fjöll að morgni og gjarnan gengið í fjóra til sex tíma eftir atvikum. Seinnipart er svo léttganga í eina til tvær klukkustundir þar sem markmiðið er að sem flestir geti verið með og segir Sævar að í þessari viku hafi skellt sér með fólk komið að áttræðu og svo aftur börn niður á leikskólaaldur.

„Svo er raunin alltaf sú að á kvöldvökunum sem fram fara alla dagana þá fjölgar fólki til muna og við bætast bæði heimamenn og ekki síður forvitnir ferðamenn. Kvöldvökurnar eru mikilvægur hluti af þessu öllu og færa mikið líf í tuskurnar.“

Í vikunni var gengið seinnipart að Hólatjörnum í Fannardal og tóku um 60 manns þátt í því. Auðvitað var endað með góðri kvöldvöku og sitthvað matarkyns með. Mynd Sævar Guðjónsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.