Arfleifð, íslensk hönnun á Djúpavogi
Ágústa Margrét Arnardóttir sem býr á Djúpavogi hannar og handgerir hágæða töskur, fylgihluti og föt undir nafninu, Arfleifð- Heritage from Iceland
Ágústa fær innblástur frá íslenskri náttúru, íslenskri menningu, íslensku
hráefni og íslensku handverki, hennar íslensku arfleifð.
,,Hráefnin sem ég nota eru öll íslensk og mörg Austfirsk til dæmis,
hreindýrahorn og lokkar úr hrossatagli, ull, fjögur mismunandi leður
og fjögur mismunandi fiskiroð sem öll eru unnin eftir mínum óskum á
Íslandi.
Hver hlutur er vandlega hannaður út frá náttúrlegu lagi hráefnisins, fagurlegu útliti og þægilegu notagildi. Hver hlutur er handgerður af kostgæfni og vandvirkni. Hver hlutur er einstakur" segir Ágústa.
,,Næsta laugardag opnar heimasíðan arfleifd.is
og frumsýning á vörunum verður í Löngubúð á Djúapvogi. Tólf
fyrirsætur sýna fatnað og fylgihluti á frumlegri og flottri
tískusýningu, ljósmyndari og grafískur hönnuður kynna heimasíðu og
fleira á skjávarpa, veiðimenn og matvælaframleiðendur frá Hornafirði
og Djúpavogi kynna og selja afurðir sínar, lifandi tónlist og léttar
veitingar", segir Ágústa Margrét Arnardóttir á Djúpavogi.