Aukin ábyrgð heimamanna innan HSA
Yfirmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Fjarðabyggð bera framvegis aukna ábyrgð á rekstri starfsstöðva stofnunarinnar í sveitarfélaginu. Bæjarráð Fjarðabyggðar fagnar því að ábyrgðin sé færð heim í hérað.
Lilja Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, tekur yfir þann rekstrarlega þátt starfsstöðva HSA í Fjarðabyggð, sem áður var í höndum lækningaforstjóra. Valdimar O. Hermannsson, forstöðumaður innkaupa- og rekstrarsviðs, tekur við mannauðsmálum nema að núverandi mannauðsstjóri sér fyrst um sinn um ráðningar lækna.
Þetta er meðal þeirra skipulagsbreytinga sem forsvarsmenn HSA kynntu á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar í vikunni.
Ráðið fagnaði því að dagleg stjórnun lækna- og hjúkrunarmála færist í hendurnar á heimamönnum. Það hvetur stjórnendur til að finna varanlega lausn ámönnunarmálum í læknis- og hjúkrunarfræðistöður og haldi heimamönnum vel upplýstum.
„Það er meginskylda allra hagsmunaaðila að snúa bökum saman í þessum efnum, leggja til hliðar fyrri skærur og horfa til framtíðar með hagsmuni, velferð og öryggi íbúa Fjarðabyggðar að leiðarljósi og leysa málin innan frá frekar en vera með stóryrði í fjölmiðlum,“ segir í bókunni.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði, Jens Garðar Helgason, lagði fram sérstaka bókun þar sem hann harmaði ummæli yfirlæknis HSA þar sem hann kenndi íbúum Fjarðabyggðar um ástandið í læknamálum í Fjarðabyggð. „Eru ummælin ekki til þess fallin að lægja öldur og ná sáttum um stöðu heilbrigðismála í Fjarðabyggð.“