Austfirskir hönnuðir sýna í Norræna húsinu
Elísabet Agla Stefánsdóttir og Sigrún Halla Unnarsdóttir, meistaranemar í fatahönnun við hinn virta danska skóla Kolding, sýna verk sín í Norræna húsinu í Reykjavík. Báðar sýna BA verkefni sín og endurhönnun á eldri þjóðbúningum frá Norðurlöndunum.
Elísabet Agla sýnir BA verkefni sitt sem byggir á skáldsögu Kristínar Ómarsdóttur, Elskan mín ég dey. Agla endurskapar persónur sögunnar og hannar föt á þær í samræmi við örlög þeirra í sögunni. Að auki sýnir hún endurhönnun sína á íslenska faldbúningnum.
Í lokaverkefni sínu hannaði Sigrún Halla hinn fullkomna mann, fatalega séð, fyrir þrjár bestu vinkonur sínar sem aðstoðuðu hana við verkefnið. Hún sýnir einnig endurhönnun á grænlenskum skinnjakka sem byggir á Amaat-skinnjökkunum sem Grænlendingar eru þekktir fyrir.
Sýningin stendur til 18. apríl og er opin á opnunartíma Norræna hússins.