Austfirskir smáframleiðendur bjóða til veislu á sunnudaginn kemur

Standi vilji til að kynna sér vörur og þjónustu smáframleiðenda á Austurlandi gefst vart betri tími til þess en á sunnudaginn kemur þegar fimmtán ára afmæli Beint frá býli verður fagnað sérstaklega í Skriðdal. Innan þess félagsskapar eru eingöngu smáframleiðendur sem búa á lögbýlum í landinu.

Þeim degi er fagnað í öllum landsfjórðungum á sama tíma en hér austanlands fer hátíðin fram á bænum Lynghóli í Skriðdal þar sem hjónin Þorbjörg Ásbjörnsdóttir og Guðni Þórðarson hafa um tíma framleitt vörur undir nafninu Geitagott.

Fyrir utan að þau hjón munu kynna sína framleiðslu og leiðsegja um staðinn muni níu aðrir smáframleiðendur taka þar þátt að sögn Þorbjargar sem segir skipulagninguna hafa gengið að óskum.

„Sannarlega hefur allt gengið vel og það með dyggum stuðningi frá ýmsum aðilum eins og ÚÍA sem lánaði okkur stórt tjald, Hreinsitækni sem lánar okkur salerni og annan stuðning höfum við einnig fengið víða að. Frábært hvað fólk hér er reiðubúið að rétta hjálparhönd þegar svo ber undir.“

Það verður þó meira í boði en freistandi réttir úr nærhéraði því Kvenfélag Skriðdæla mun bjóða upp á veitingar og Náttúruskólinn ætlar að kynna ýmislegt það sem sá skóli býður upp á. Síðast en ekki síst getur smáfólkið skemmt sér líka því á Lynghóli er töluvert af geitum og þar á meðal tveir kiðlingar sem komu seint í heiminn í sumar.

„Það er svona okkar reynsla að börnin njóta þess ávallt að sjá geiturnar og kiðlinga og færi gefst á því á sunnudaginn kemur. Við ætlum að setja kiðlingana í girðingu nálægt tjaldinu svo krakkarnir geta séð dýrin og fengið að klappa þeim og svoleiðis. Það verður gaman að sjá sem flesta og veðurspáin fer mjög batnandi þannig að dagurinn verður góður.“

Afmælishátíðin hefst klukkan 13 á sunnudaginn og varir til klukkan 17.

Fjöldi austfirskra smáframleiðenda bjóða gestum og gangandi að prófa vörur sínar á sunnudag og smáfólkinu leiðist lítið að sjá og klappa geitum á staðnum. Mynd Austurbrú

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar