Austfirskir staðir í taka þátt í að kynna fisk fyrir ferðafólki

Níu austfirskir veitingastaðir taka þátt í sameiginlegu markaðsátaki íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sem ætlað er að markaðssetja íslenskt sjávarfang til erlendra ferðamanna til að auka neyslu þeirra á sjávarafurðum meðan þeir dvelja á íslandi.

Herferðin kallast: Icelandic Nature – It Goes Great With Fish. Í auglýsingum sem beint er að ferðamönnum er boðið upp á matarpörun sem felur í sér íslenskar náttúruperlur og rétti úr íslenskum fisk.

Með herferðinni er meðal annars verið að fylgja eftir könnun sem Maskína gerði fyrir Íslandsstofu, en stofnunin heldur utan um átakið. Þar kom fram að 79% ferðamanna neyta sjávarfangs á meðan þeir dveljast hér, en 39,5% svarenda borða íslenskan fisk einu sinni eða sjaldnar. Markmiðið er að lækka það hlutfall og fá íslenskan fisk oftar á disk ferðamanna á meðan á heimsókn þeirra stendur.

Þá kemur jafnframt fram í könnuninni að um 44% ferðamanna gefa íslenskum mat háa einkunn (8-10), en 79% gefa íslenskum fisk góða einkunn, þar af 36% sem gefa honum 10.

Samkvæmt landakorti sem er ein af þungamiðjum herferðarinnar taka níu austfirskir veitingastaðir þátt. Þeir eru Café Nielsen á Egilsstöðum, Hótel Aldan og Norð Austur á Seyðisfirði, Randulfssjóhús á Eskifirði, Hótel Hildibrand í Neskaupstað, Fosshótel Austfirðir og Café Sumarlína á Fáskrúðsfirði, Hótel Breiðdalsvík og Hótel Framtíð á Djúpavogi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar