Bæta um betur í loppumarkaðnum Fjarðabásum á Reyðarfirði
Berglind Björk Arnfinnsdóttir sem rekur loppumarkaðinn Fjarðabásar í Molanum á Reyðarfirði er hvergi af baki dottin þó rekstrargrundvöllur tveggja annarra slíkra markaða austanlands hafi reynst of þungur undanfarið. Þvert á móti er hún að bæta í.
Rúmt hálft ár er síðan Fjarðabásar opnuðu dyrnar fyrsta sinni en á þeim tíma voru starfræktir tveir slíkir markaðir á Austurlandi. Annars vegar Hólagull á Eskifirði og Notó á Djúpavogi og síðar bættist við sá fjórði á Egilsstöðum. Hólagull og Notó hafa nú hætt rekstri en Berglind segir grundvöll fyrir rekstri Fjarðabása hafa farið batnandi og almennt vera nokkuð betri en hún sjálf gerði ráð fyrir í upphafi.
„Sannarlega. Ég var sjálf viss um í upphafi að ég yrði aðgerðarlaus að mestu yfir opnunartímann því reglan er að það er oft rólegt yfir daginn á svona stöðum enda búið að gera það sem gera þarf fyrir opnun en það alls ekki raunin. Ég er nánast á löppum allan tímann að aðstoða og leiðbeina viðskiptavinum. Sjálf held ég að ákveðin hugarfarsbreyting sé að verða hér á svæðinu varðandi að kaupa notaðar flíkur og vörur. Það er auðvitað ekki allra en fleiri og fleiri ný andlit eru þó að sjást í verslunni dag frá degi sem mér finnst vera frábært og bera vott um að þeim fjölgar sem eru meðvitaðir um að nýta hlutina í stað þess að henda.“
Hún hefur verið ötul við að brydda upp á nýjungum þennan tíma og bæði bætt við vöruúrvalið og eins gert það fjölbreyttara. Nú hefur hún meðal annars, í aðdraganda Öskudags á miðvikudaginn eftir viku, komið upp sérstökum bás með Öskudagsbúningum og ekki leið á löngu áður en sá bás fylltist af lítt notuðum búningum sem fólk situr með í geymslunni og salan verið góð.
„Annað sem við tókum upp á að bjóða fólki eru ýmsar umhverfisvænar vörur í áfyllingu. Fólk getur komið til mín með brúsa eða ílát og fengið áfyllingu af sápum, sjampói, hárnæringum eða jafnvel bara uppþvottalegi og getur því nýtt plastílát eða slíkt án þess að henda slíku alltaf þegar þær klárast. Slíku hefur verið ágætlega tekið hingað til en ég var sjálf persónulega að selja slíkar vörur beint um fimm ára skeið áður en við opnuðum Fjarðabása.“
Öskudagsbúningar duga gjarnan aðeins einn Öskudag áður en þeir verða of litlir og þeim hent eða fara í geymslu. Það óþarfi lengur. Mynd aðsend