Bæta við sýningu á Stjórnleysingi ferst af slysförum

Leikfélag Seyðisfjarðar hefur ákveðið að bæta við aukasýningu á leikverkinu Stjórnleysingi ferst af slysförum, sem sýnt var við góðar viðtökur í Herðubreið á Seyðisfirði um helgina.

„Við fengum mjög góðar viðtökur um helgina en heyrðum líka af fólki sem komst ekki þá. Fyrst vorum búin að æfa upp verkið þá hugsuðum við með okkur, hví ekki að sýna það einu sinni enn,“ segir Snorri Emilsson sem leikstýrir verkinu ásamt Ágústi Torfa Magnússyni.

Verkið eftir ítalska leikritaskáldið Dario Fo, handhafa Nóbelsverðlaunanna í bókmenntun árið 1997. Hans þekktasta verk er trúlega „Við borgum ekki! Við borgum ekki!“ sem skrifað var árið 1974 en leikverkið sem sýnt er á Seyðisfirði var frumsýnt fjórum árum fyrr.

Það gerist á ítalskri lögreglustöð þar sem verið er að yfirheyra sakborning sem lögreglunni þykir ekki mjög trúverðugur. Yfirheyrslan vindur upp á sig og leiðist út í rannsókn á dauða stjórnleysingja af slysförum. Við það kemur ýmislegt fleira í ljós. „Verkið er ekki í farsastíl heldur gamanádeila á þjóðfélag þess tíma. Það á samt allt eins við í dag,“ segir Snorri.

Hann segir verkið hafa orðið fyrir valinu því það hafi fallið að stærð leikhópsins og þeim hugmyndum sem leikfélagið hafði um sýningu. „Það eru sex hlutverk. Við vildum helst gamanverk og um sakamál.“

Með sýningunni vaknar leikfélagið úr dvala en síðast sýndi það stuttverk eftir Anton Checkov í desember árið 2018. „Rétt fyrir Covid vorum við byrjuð að undirbúa sýningu. Æfingaferlið var hins vegar ekki langt komið.“

Mynd: Leikfélag Seyðisfjarðar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar