„Bara láta vaða, engin spurning“

„Það geta allir tekið að sér skiptinema. Ég var bara ein í heimili ásamt hundinum, þannig að það skiptir engu máli hvort fjölskyldan sé stór eða lítil,“ segir Málfríður Björnsdóttir á Egilsstöðum, en hún opnaði heimili sitt fyrir skiptinema á vegum AFS síðastliðinn vetur. Fyrir fólk sem hefur áhuga á að gera slíkt hið sama þá er tækifærið núna því enn er leitað að heimilum fyrir skiptinema á skólaárinu sem er að hefjast.

Alþjóðlegu fræðslusamtökin AFS starfa í yfir 50 löndum í öllum heimsálfum. Von er á 24 erlendum skiptinemum til Íslands í ágústlok. Nemarnir eru á aldrinum 15-18 ára, ganga í skóla út um allt land og dvelja hér í tíu mánuði.

Byrjaði á því að lenda í sláturgerð


Málfríður var samtökunum ekki áður ókunn, en árið 2011 fór sonur hennar sem skiptinemi til Austurríkis og hún tók að sama tíma að sér stelpu frá Japan. Þá hefur hún einnig verið tengiliður samtakanna.

„Í október síðastliðnum var ég beðin um að taka að mér strák frá Þýskalandi sem hafði byrjað á öðru heimili en það ekki gengið upp. Ég bauð honum í heimsókn þar sem ég var í miðri sláturgerð. Hann lifði það af og þá sá ég að hann myndi höndla þetta og ég sló til,“ segir Málfríður um tildrög þess að Lee Schneider 16 ára, frá Bæjaralandi í Þýskalandi, dvaldi hjá henni síðastliðinn vetur.

„Skemmtilegt, lærdómsríkt og eykur víðsýni“

Aðspurð að því hvað hún ráðleggi fólki sem hefur íhugað að taka að sér skiptinema segir Málfríður; „Bara láta vaða, engin spurning! Þetta er mjög skemmtilegt, lærdómsríkt og eykur víðsýni. Auðvitað fylgja áskoranir, sérstaklega ef menningarmunurinn er mikill,“ segir Málfríður.

Málfríður segir engan kostnað falla á fjölskyldur umfram þann sem telst eðlilegt uppihald á heimili. „Nemarnir sjá sjálf um vasapeninga, AFS greiðir skólagjöld og annan kostnað sem skólanum tengist og ef þau vilja fara í einhverjar tómstundir þá greiða þau það sjálf. Þannig að þetta er bara það sem við myndum annars borga fyrir börnin okkar, fæði, bíóferðir og annað slíkt.“

Pressa á krakkana að læra íslensku

Það er eitt umfram annað sem Málfríður ráðleggur þeim sem eru með skiptinema á heimilinu; „Ekki vera hrædd við að pressa á krakkana að læra íslenskuna, en með því móti komast þau mun frekar inn í samfélagið. Lee sá mest eftir að hafa ekki byrjað fyrr að reyna að tala íslenskuna, en var þó nánast orðinn reiprennandi í íslensku þegar hann fór í vor. Það sem hjálpaði honum mest var að hann tók þátt í uppfærslu leikfélagsins í menntaskólanum. Þrátt fyrir það voru krakkarnir enn að tala við hann ensku þó svo hann svaraði á íslensku, það er bara svo ótrúlega fast í okkur,“ segir Málfríður.

Feginn að sleppa við messuhald um jólin

Dvöl skiptinemana miðast við skólaárið, eða frá ágústlokum og fram í júní. „Það á alls ekki að halda uppi einhverju skemmtiprógrammi, krakkarnir eru bara partur af fjölskyldunni og eiga að taka þátt í heimilishaldinu eins og aðrir fjölskyldumeðlimir. Það sem stóð helst upp úr dvölinni hjá Lee var að komast út í náttúruna um leið og hann opnaði útidyrnar,“ segir Málfríður.

Nemarnir dvelja jafnframt hjá fjölskyldunni yfir jólin. Hvernig skyldi Lee hafa líkað íslenskt jólahald? „Hann var bara mjög ánægður með þetta. Honum þótti íslenski jólamaturinn góður, en hann er ekkert sérlega hrifinn af þeim þýska. Svo var hann mjög ánægður með að sleppa við að fara í kirkju,“ segir Málfríður og hlær.

Allar nánari upplýsingar um starfsemi AFS er að finna hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar