Barnakór Egilsstaðakirkju sýnir frumsaminn söngleik - Myndir
Barnakór Egilsstaðakirkju sýnir á morgun söngleik sem sérstaklega hefur verið saminn fyrir kórinn. Kórstjórinn segir kórstarfið vera að eflast og sýningu sem þessa gefa því enn frekar byr undir báða vængi.„Í tilefni af 50 ára afmælis kirkjunnar sendum við upp söngleik „Hvar er krossinn“ með kórum fullorðinna hér við kirkjuna. Það vakti lukku og við fengum hvatningu til að halda áfram á slíkri braut.
Þegar ég fór að hugsa um nýtt verkefni kom þessi hugmynd því mig langaði að búa til verkefni fyrir barnakórinn,“ segir Sandor Kerekes, organisti og kórstjóri við Egilsstaðakirkju.
Síðan Sandor kom til starfa í kirkjunni árið 2022 hefur hann unnið að því að byggja upp barnakór við kirkjuna. „Börnin voru mjög fá í byrjun en þeim hefur fjölgað. Nú erum við með um 10 börn í kórnum og fjögur í hljómsveitinni. Æfingaferlið er búið að vera mjög skemmtilegt og mikið hlegið á æfingum.“
Sandor skrifar söguna í söngleiknum. Hún fjallar um jólasveinana sem lifa upp í fjöllunum lengst af árinu en þurfa síðan að koma sér til byggða til að gefa börnunum gjafir í desember. Sú leið er þyrnum stráð svo úr verður mikið ævintýri.
Lögin í sýningunni eru flest vel þekkt jólalög en eitt nýtt bætist við. „Ég samdi eitt lag og Þorgeir (Arason) prestur gerði textann. Það heitir „Jólasveinar þramma“ og fjallar um jólasveinana sem koma ofan úr fjöllunum,“ segir Sandor.
Á morgun, föstudaginn 20. desember klukkan 17:00, verður almenn sýning á verkinu í Egilsstaðakirkju. Búið er að prufukeyra það með tveimur sýningum fyrir leikskólabörn í síðustu viku.
„Ég var stressaður því það er svo mikil samkeppni um athygli þeirra en börnin sátu mjög stillt og horfðu opinmynnt á sýninguna, þannig ég er mjög ánægður. Það er mjög gaman að taka þátt í svona verkefnum og við getum gert meira svona með kórunum okkar.“
Myndir: Unnar Erlingsson