Skip to main content

Besti orgelleikari sem komið hefur fram í Egilsstaðakirkju

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. ágú 2022 09:26Uppfært 23. ágú 2022 09:30

Matthias Wager, dómorganisti í Stokkhólmi, heldur tónleika í Egilsstaðakirkju í kvöld. Tónleikarnir eru hinir síðustu í 20 ára afmælisröð Tónlistarstunda á Héraði.


„Hann mun spila verk eftir Bach og fleiri en ekki síst skemmta okkur með spuna yfir íslensk sálmalög. Hann er sannur snillingur í spunanum og meistari í honum sem öllu öðru á hljóðfærinu.

Betri orgelleikari hefur aldrei komið fram í Egilsstaðakirkju,“ segir Torvald Gjerde, skipuleggjandi Tónlistarstundanna. Hann er líka dómbær á orgelleik hafandi verið organisti kirkjunnar sjálfur í áraraðir.

Wager sjálfur er 55, fæddur í Stokkhólmi og nam þar orgel- og kirkjutónlist við Konunglega tónlistarháskólann þar sem hann fékk sérstök verðlaun fyrir útskriftartónleikana. Hann heldur reglulega tóleika á virtum hátíðum í Evrópu og hefur unnið til fjölda verðlauna í alþjóðlegum orgelkeppnum.

Wager varð organisti við dómkirkjuna í Stokkhólmi árið 2006 og dómorganisti þar fimm árum síðar. Hann kennir við tónlistarháskóla á fleiri stöðum í Svíþjóð og hefur einnig kennt íslenskum orgelnemendum á námskeiðum. Hann hefur margsinnis leikið hérlendis.

Wager hefur ennfremur starfað með fjölda listamanna í Svíþjóð og samið tónlist fyrir sviðslistir. Hann hefur í gegnuum tíðina verið heillaður af möguleikum spunans, safnaðarsöngs og ýmissa tilrauna með nýja tónlist, að því er fram kemur í tilkynningu.

Tuttugu ár eru síðan fyrsta sumartónleikaröðin í Egilsstaða- og Vallneskirkju var skipulögð og hefur dagskráin því verið óvenjuvegleg í sumar. Tónleikar Wagers reka smiðshöggið á sumarið. Þeir hefjast klukkan 20:00 og er aðgangur ókeypis.