Biðlistar í sérstök „myndlistarpartí“ í Sesam brauðhúsi
Hún kom til Íslands fyrir níu mánuðum síðan, endaði á Reyðarfirði þar sem hún starfar hjá Sesam brauðhúsi og tók nýverið upp á því að bjóða í „myndlistarpartí“ á sunnudögum. Það tekist svo vel til að það eru komnir biðlistar í næstu partí.
Rasa Tverskyte er frá Litháen, menntaður myndlistarmaður og tók upp á því í vor með góðum stuðningi eigenda Sesam brauðhúss að nýta sunnudagana, þegar staðurinn er lokaður, til að bjóða upp á þriggja stunda myndlistarkennslu en með þeim formerkjum að allir hafi gaman að. Kleinur og kaffi með góða skapinu til að skapa stemmningu og þátttakendur hingað til segja það sannarlega hafa tekist. Enginn þarf að hafa neitt meðferðis því allt er innifalið í lágu fimm þúsunda króna þátttökugjaldinu.
„Ég er afskaplega ánægð með hvernig til hefur tekist og verið fullbókað nánast frá upphafi. Hugmyndin er bara að sýna fólki sem heldur að það geti ekki teiknað eða málað að það geta allir í raun og veru. Þá hjálpar ef þetta er ekki of formlegt heldur meira skemmtun og ég reyna að skapa þá stemmningu í hvert sinn.“
Til stóð að halda næsta partí á sunnudaginn kemur en Rasa hyggst bakka með það þar sem svo margir séu í fríi eða á leið í frí. Nokkuð sem hún gerði sér ekki grein fyrir þegar hún skipulagði viðburðina.
„Það eru mjög margir að fara í frí hérna svo ég ætla að hinkra með næsta námskeið. En það er nokkuð af fólki sem er búið að panta hjá mér og ég býst við að taka upp þráðinn að nýju með haustinu þegar allir eru komnir úr fríum.“
Salurinn í Sesam tilbúinn fyrir næsta partí sem verður að öllum líkindum með haustinu ef allt gengur eftir. Rasa sjálf fyrir miðju myndar. Mynd RasaDekor