Orkumálinn 2024

Bílskúrspartý í fimm ár

Að kvöldi fyrsta þriðjudags júnímánaðar árið 2017 var bílskúrshurðinni á Valsmýri 5 í Neskaupstað lokið upp og pönkhljómsveitin DDT skordýraeitur taldi í tónleika. Tónleikarnir undu upp á sig og síðan hafa farið fram tónleikar, eða aðrir gjörningar, alla þriðjudaga í júní og júlí í bílskúrnum við Valsmýri 5 og ber tónleikaröðin nafnið V-5 bílskúrspartý.

Um er að ræða hátt í 50 tónleika og hafa þeir verið af fjölbreyttum toga, allt frá harmonikudúett í harðkjarnapönk. Tónleikaröðin hefur fest sig í sessi hjá bæjarbúum sem fjölmenna iðulega á þriðjudagstónleikana. Eigendur Valsmýri 5 eru hjónin Arnar Guðmundsson og Ingibjörg Þórðardóttir.

Æfingakvöldið varð að tónleikaröð
Árið 2015 stofnuðu fjórir framhaldsskólakennarar við Verkmenntaskóla Austurlands hljómsveitina DDT Skordýraeitur; Þorvarður Sigurbjörnsson (Varði), Pjetur St. Arason, Ágúst Ingi Ágústsson og Arnar Guðmundsson. „Við vorum lengi að vandræðast með æfingahúsnæði og æfðum um tíma í frystigámi við heimili Pjeturs. Við færðum okkur svo hingað í bílskúrinn heima hjá mér, þar sem var meira pláss og aðeins þægilegri aðstaða. Við æfðum alltaf á þriðjudögum og á einni æfingunni stakk ég upp á því að við myndum bara opna skúrinn og halda tónleika. Það var í raun upphafið að því sem síðan varð V-5 bílskúrspartý,“ segir Arnar um upphaf bílskúrspartýsins. „Eftir þessa fyrstu tónleika þróaðist þetta nokkuð hratt í það að við fórum að hafa samband við fleiri hljómsveitir og tónlistarmenn og það var ákveðið að hafa þetta alla þriðjudaga í júní og júli. Meðlimir DDT skordýraeiturs Varði, Pjetur og Hjálmar Joensen, sem tók við trommuhlutverkinu af Ágústi Inga í fyrrasumar, hafa aðstoðað mikið við þessa tónleika og þeir eiga hrós skilið“ segir Arnar en V-5 bílskúrspartý á m.a. sitt eigið logo sem Varði hannaði og er það á fána sem blaktir allt sumarið við Valsmýri 5.


Ingibjörg segist hvorki hafa kippt sér upp við það þegar Arnar ákvað að gera bílskúrinn að æfingarhúsnæði né heldur þegar hann var gerður að tónleikastað. „Ég setti eitt skilyrði og það var að ég gæti lagt bílnum mínum inn í bílskúr á veturna, það er of mikill lúxus til að geta sleppt því,“ segir Ingibjörg og brosir. „Það hefur verið gaman að horfa á tónleikana vaxa og dafna og í ár eru þeir algjörlega að blómstra. Mögulega spilar dásamlegt veðrið í sumar þar inn í. Það hefur verið gaman að sjá hve vel nágrannar okkar hafa tekið í þetta, það er ekki sjálfgefið að eiga svo góða nágranna að þeir kippi sér ekkert upp við tónleikana. Þeir hafa raunar verið virkir þátttakendur. Stelpurnar í húsinu fyrir neðan okkur hafa verið að gera pönnukökur og gefa á meðan tónleikum stendur í sumar. Á tónleikunum í sumar héldu líka nokkrar stelpur tombólu í götunni og söfnuðu tæplega 50 þúsund krónum fyrir sjúkrahúsið. Á móti okkur, í Valsmýri 6, hafa Guðmundur Rafnkell og dóttir hans María Bóel haldið tónleika öll árin nema í ár. Þannig að þetta hefur verið algjör hátíð hér í götunni,“ segir Ingibjörg.

Fjölmennast á Prins Póló
Arnar og Ingibjörg segjast hafa orðið vör við mikla jákvæðni í garð tónleikanna og þeir hafi oftar en ekki verið vel sóttir. „Upphaflega hugmyndin var sú að leita ekki mikið út fyrir fjallahringinn að tónlistaratriðum en fljótlega áttaði maður sig á að það væri kannski aðeins of lítið mengi til að halda úti tónleikum einu sinni í viku í tvo mánuði. Markmiðið hefur því alltaf verið að þeir sem spili hér hafi sterka tengingu við Austurland og það hefur verið raunin með alla tónleika sem við höfum haldið, það er alltaf tenging við Austurland. Einu undantekningarnar á því í bílskúrnum hefur verið á Eistnaflugi þegar einhverjar hljómsveitir sem eru að spila þar hafa heyrt af þessum tónleikum og fengið að spila í skúrnum, það hefur í raun ekki verið hluti af þriðjudagstónleikunum en samt sem áður afskaplega gaman,“ segir Arnar.


Tónleikarnir hafa verið misjafnlega sóttir en langmesta aðsóknin var þegar Prins Póló tróð upp í skúrnum árið 2018. „Hann hélt að það yrðu bara örfáar hræður á tónleikunum. Hann sat og drakk kaffi inn í stofu hjá okkur og sá að fólk streymdi upp götuna. Þegar upp var staðið voru 250 manns sem sáu hann spila í Valsmýri á frábærum tónleikum,“ segir Arnar.


Ingibjörg segir að það sem henni hafi þótt skemmtilegast við bílskúrspartýin sé hve afslöppuð þau eru og engin pressa á þá sem troða upp eða fólk að mæta. „Það hefur enginn tekið krónu fyrir að spila í bílskúrnum okkar. Bílskúrshurðin er bara opnuð og varðandi áhorfendur þá koma þeir sem koma vilja. Þetta hefur aðallega verið auglýst á facebook og svoleiðis en annars rennur fólk bara á hljóðið. Ef það mætir einn á tónleikana þá mætir bara einn og það er í góðu lagi. Þetta er unnið í sjálfboðavinnu og með léttleika og gleði í fyrirrúmi. Þetta gerir það líka að verkum það verður enginn fyrir vonbrigðum með eitt né neitt. Fólk má bara koma og fara eins og því hentar, ef þér finnst atriðið ekki skemmtilegt þá þarftu ekki að bíða tónleikana af þér. Það sem er líka gaman að sjá er að tónleikarnir hafa orðið að svolitlum samkomustað fólks hér í bænum og á þeim hittast margir. Maður hefur meira að segja heyrt af fólki sem á leið um Austurland sem stílar inn á það að vera í Neskaupstað á þriðjudegi til að hitta á tónleika,“ segir Ingibjörg.

„Ágætt að segja staðar numið nú þegar vel gengur “
Tónleikarnir hafa orðið vinsælli með hverju árinu og í sumar þurfti lítið að hafa fyrir því að bóka atriði í skúrinn þar sem langflestir höfðu samband að fyrra bragði. Þrátt fyrir það tilkynnti Arnar eftir síðustu tónleika sumarsins að sennilega yrðu tónleikarnir ekki fleiri. „Ekkert er eilíft og ég held að það sé ágætt að segja staðar numið nú þegar vel gengur. Ég ætla samt ekki að útiloka að það verði haldnir tónleikar í Valsmýri á næsta ári, en ég hef tekið ákvörðun að það verði ekki í þeirri mynd sem nú er. Þetta er binding og ég hugsa að ég vilji ekki vera með hugann við þetta allt næsta sumar. Þá hafa tónleikarnir í júní oft reynst okkur illa veðurlega séð og stundum verið ískalt sem er ekki boðlegt, hvorki tónlistarfólkinu né áhorfendum,“ segir Arnar.


Arnar hefur velt fyrir sér öðrum möguleikum varðandi tónleikahald í skúrnum. „Ég væri alveg til í að horfa til þess að þegar veðurspáin er góð næsta sumar, og útlit fyrir glampandi sól á laugardegi, að maður taki upp símann og setji saman einhverja tónleika. Ég er mjög ángæður með að hér hefur farið fram svolítið grasrótarstarf. Hér hafa margir stigið sín fyrstu skref og spilað í fyrsta sinn fyrir hóp áhorfenda. Maður er ánægðastur með það að geta gefið yngri kynslóðinni svið til þess að spreyta sig á. Hér hefur farið fram frumflutningur á lögum, síðast í sumar frumflutti Hákon Aðalsteinsson lagið Barcelona í bílskúrnum og undanfarið hefur það fengið töluverða spilun á Rás 2. Það hefur því margt gerst í skúrnum og ég er mjög stoltur af þessu verkefni. Ég vil koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa spilað í skúrnum eða framið þar gjörning, sem og öllum þeim sem aðstoðuðu við tónleikana með einum eða öðrum hætti og ekki síst nágrönnum okkar fyrir þolinmæðina,“ segir Arnar að endingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.