Birds.is á alþjóðlegri fuglaskoðarahátíð

Um síðastliðna helgi fór fram hátíðin The British Birdwatching Fair eða Birdfair við Rutland Water í Northamptonskíri á Englandi. Hátíðin er þekkt sem nokkurs konar Glastonbury hátíð fuglaskoðara en fólk streymir að hvaðanæva úr heiminum til að taka þátt. Íslensku þátttakendurnir á sýningunni voru Birds.is á Djúpavogi, Gavia Travel, Isafold Travel, Vestfjarðaklasinn, Hótel Brimnes og Atvinnuþróunarfélag Norður-Þingeyjasýslu.

birdfair_7_vefur.jpg

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Útflutningsráði er talið að þetta árið hafi vel yfir 20.000 manns mætt þá þrjá daga sem hátíðin stóð yfir. Á hátíðinni var boðið upp á fjölbreytta dagskrá þar sem sjá mátti fjölda þekktra andlita flytja erindi og kynnast öllu því nýjasta sem yfir 300 sýnendur víðs vegar að úr heiminum höfðu upp á að bjóða í vöru og þjónustu á þessu sviði.

Hátíðin hefur verið haldin árlega síðan árið 1989 en eins og á Glastonbury hátíðinni rennur allur ágóði af hátíðinni til góðgerðarmála og rann ágóðinn að þessu sinni til verkefnis á vegum alþjóðlega fuglaverndarfélagsins Birdlife. En verkefnið snýst um að bjarga 47 fuglategundum frá útrýmingu.

Að þessu sinni tóku sex íslensk fyrirtæki og félög þátt í hátíðinni en Útflutningsráð Íslands í samstarfi við nýstofnuð Samtök um fuglatengda ferðaþjónustu höfðu veg og vanda að undirbúningi fyrir þátttökuna.

Að sögn Hrafns Svavarssonar formanns Samtaka um fuglatengda ferðaþjónustu er mikilvægt að Ísland láti sjá sig á hátíðum sem þessum: „Með samtökunum er ætlunin að koma Íslandi almennilega inn á kortið sem áfangastað til fuglaskoðunar hjá erlendum fuglaskoðurum. Með því að hafa bás á svona hátíð náum við að vekja athygli á landinu og þeim einstöku aðstæðum sem landið hefur upp á að bjóða til fuglaskoðunar“.

Á hátíðinni var að finna allt það nýjasta sem tengist fuglaskoðun og fuglarannsóknum. Allt frá nýjustu gerðum af sjónaukum og bókum til fjölda áfangastaða til fuglaskoðunar. Mikil tækifæri liggja fyrir íslenska ferðaþjónustu í fuglaskoðun og má nefna að í Bretlandi eru 1,3 milljónir manna meðlimir í fuglaskoðunarsamtökum Bretlands. Þá er talið að um 20 milljónir manna í Bandaríkjunum fari í fuglaskoðunarferðir á ári hverju.

Íslenski básinn vakti mikla lukku og var þúsundum bæklinga dreift til hátíðargesta og spurningum um allt mögulegt sem tengist Íslandi og fuglaskoðun á Íslandi svarað. Athygli vakti meðal íslensku sýnendanna hversu vinsælt landið er nú þegar og margir sem höfðu komið áður höfðu hug á því að fara aftur við fyrsta tækifæri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.