Birna Jóna í þriðja sæti í sleggjukasti á Meistaramóti Íslands

Birna Jóna Sverrisdóttir úr UÍA varð í þriðja sæti í sleggjukasti kvenna á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum sem haldið var um síðustu helgi. Birna Jóna náði þar sínu lengsta kasti á ferlinum.

Birna Jóna náði þremur gildum köstum. Það lengsta kom í síðustu umferðinni og var 47,31 metri. Í fyrstu umferð kastaði hún 42,95 metra og 45,66 metra í næst síðustu umferð.

Þetta er besti árangur Birnu með 4 kg fullorðinssleggjunni. Hennar besti árangur til þessa var á Sumarhátíð UÍA fyrr í mánuðinum, 45,52 metrar. Birna Jóna byrjaði að kasta þessari þyngd fyrir tveimur árum, kastaði 42,07 metra í ágúst í fyrra og 36 metra fyrir tveimur árum. Þau köst eru gildandi Íslandsmet í þeim aldursflokkum.

Birna Jóna varð þó nokkuð á eftir þeim efstu í keppninni um helgina, Guðrúnu Karitas Hallgrímsdóttur og Vigdísi Jónsdóttur úr ÍR. Þær eru nokkuð eldri, Vigdís fædd 1996 og Guðrún Karitas 2002 en Birna 2007. Guðrún Karitas vann með kasti upp á 65,21 metra og setti mótsmet. Vigdís kastaði lengst 60,81 metra.

Birna Jóna hefur ávallt æft með Hetti og keppt fyrir UÍA en stefnir í haust suður til æfinga með ÍR og helga sig þá enn frekar íþróttinni. Hún var eini keppandi UÍA á mótinu.

Mynd: Frjálsíþróttasamband Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar