Bæjarstjórnarskrifstofu lokað á Neskaupstað um áramót
Ákveðið hefur verið að loka skrifstofu sveitarfélagsins Fjarðabyggðar í Neskaupstað um áramótin. Starfsemin verður flutt til Reyðarfjarðar. Tilhögunin á að spara sveitarfélaginu 15 milljónir króna árlega. Þetta var tilkynnt á starfsmannafundi í dag. Á skrifstofunni í Neskaupstað starfa ellefu starfsmenn, sem þurfa þá væntanlega að sækja vinnu til Reyðarfjarðar. Leki kom upp í húsnæði skrifstofunnar og ástand húsnæðisins þykir óviðunandi en leigusali hefur haft kvartanir að engu. Því var ákveðið að rifta leigusamningi um húsnæðið og flytja skrifstofuna á Reyðarfjörð.
Talað er um að hugsanlega fái starfsmenn ökutækjastyrk og fái að aka fram og til baka í vinnutíma sínum fyrst um sinn.