Blása aftur í Heilsudaga á Vopnafirði í nóvember

Annað árið í röð mun útgerðarfyrirtækið Brim taka höndum saman við Vopnafjarðarhrepp og halda sérstaka Heilsudaga í nóvembermánuði.

Þetta staðfestir Fanney Björk Friðriksdóttir hjá Brim sem heldur mikið til utan um verkefnið en markmið þess er að bjóða upp á fjölbreytta heilsutengda dagskrá í heila viku fyrir alla sem áhuga hafa. Heilsudagarnir þóttu takast það vel á síðasta ári með afar góðri þátttöku bæjarbúa að ekki er loku fyrir skotið að Heilsudagarnir séu komnir til að vera. Þá var dagskráin vægast sagt þétt frá morgni til kvölds í heila viku og þar til dæmis prufutímar í hinum ýmsu íþróttagreinum, kynfræðsla, blakmót og allmörg fræðsluerindi um líf og heilsu svo fátt sé nefnt.

Fanney segir tímasetninguna ekki alveg liggja fyrir á þessari stundu en líkurnar meiri en minni að Heilsudagarnir fari fram síðustu viku nóvembermánaðar. Tímasetning helgast töluvert af veiðum uppsjávardeildar Brims á Vopnafirði enda heilsuverkefnið ekki síður ætlað starfsfólki Brims en öðrum bæjarbúum.

Krossfit, bocchia, blak, lífsleikni, göngur og fræðsla af ýmsum toga um líf og heilsu á Heilsudögum Brims. Mynd Vopnafjarðarhreppur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar