Blómabær í Leyningi
Á bænum Leyningi, milli Egilsstaða og Eiða, hafa hjónin Ásta Margrét Sigfúsdóttir og Kjartan Reynisson komið sér upp nokkrum gróðurhúsum þar sem þau rækta blóm og pottaplöntur til sölu. Það gera þau undir merkjum Blómabæjar sem þau ráku um árabil á Egilsstöðum.Ásta Margrét gantast með að heiti staðarins; Leyningur, stafi beinlínis af því hversu hljótt starfsemi þeirra fer. Heitið er komið til ára sinna þó landið sé ekki ýkja stórt, en á sannarlega við því ekkert nema lítið skilti í vegkantinum á Borgarfjarðarvegi gefur til kynna að þarna sé neitt annað en moldugur vegslóði út í skógrækt.
Það er að öllum líkindum Kjartani um að kenna hve mjög hjónin hafa helgað sig blómaræktun góðan hluta ævinnar. Hann fékk nefnilega áhugann sem ungur drengur í því sem þá var nokkur sveit þar sem afi hans var blómaáhugamaður.
„Þetta byrjaði þegar ég var bara stráklingur en þá bjuggu afi og amma í Skerjafirðinum og áttu mikinn og stóran garð sem var vel sinnt og þar fór ég að hjálpa til og ég geri ráð fyrir að áhuginn hafi kviknað þar. Hann hef ég verið með síðan svona meira og minna.“
Þau hófu svo fljótlega ræktun og sölu eftir að austur á land var komið og opnuðu fljótlega Blómabæ á Egilsstöðum þar sem Austfirðingar gátu gengið að fallegum plöntum og öllu meðfylgjandi um langt skeið. Erfiðlega gekk að slíta á ræturnar í blómaræktuninni og fyrir tveimur árum síðan opnuðu þau svo stað sinn í Leyningi. Þar hefur gengið vel þó bæði Kjartan og Ásta viðurkenni að kunna lítið til verka við að koma sér á framfæri á samfélagsmiðlum.
„Þar fáum við þó góða hjálp og það verður að segjast eins og er að það er eftir því tekið sem birtist þar. Það er helst þannig sem fólk fréttir af okkur hér enda höfum við lítið reynt að koma okkur á framfæri með auglýsingum eða slíku.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.