Bókabúðin Eskja lifnar við
Bókabúðin Eskja hefur opnað dyr sínar á Eskifirði á ný. Að þessu sinni stendur Heiða Skúladóttir að baki henni og verslar með safnaravörur, gjafavörur og býður jafnvel upp á rúnalestur.Bókabúðin Eskja er gamalkunnugt heiti og var þekkt fyrir sölu á prjónadóti, bókum og gjafavöru. Hún hefur hins vegar ekki verið starfrækt síðustu árin, en grunnurinn var til staðar í húsnæði hennar að Útkaupstaðarbraut 1, þar sem Verslun Elísar Guðnasonar var áður.
„Ég man eftir búðinni frá því ég var yngri, þótt ég hafi ekki verslað mikið í henni. Ég hef hins vegar orðið vör við að Eskfirðingar halda mikið upp á bæði búðina og húsið,“ segir Heiða, sem er uppalin á Fljótsdalshéraði og hefur búið þar síðustu ár.
Inni í búðinni, sem jafnframt inniheldur flóamarkaðinn Sveskju, kennir ýmissa grasa. Heiða sýnir okkur gamlar amerískar teiknimyndasögur í möppu og bendir upp á hillu þar sem standa japanskar anime-dúkkur. „Ég ætla að nota sumarið til að spyrja Eskfirðinga hvað þeir vilja hafa hér. Ferðamenn sem hafa rekið inn nefið finnst gaman að skoða búðina og eru hissa á að sjá til dæmis japönsku dúkkurnar.“
Les í rúnir
Uppi á vegg hangir líka skilti þar sem boðið er upp á rúnalestur, ef pantað er með fyrirvara. „Fyrir um 20 árum opnaði ég nornabúð í Reykjavík með Evu Hauksdóttur, nú lögfræðingi. Sú búð rataði í fjölmiðla víða um heim. Þar vorum við að spá í rúnir og tarot. Ég kann þetta enn, en ég nenni ekki tarotinu lengur.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þessum gamla tíma. Ég las mér til í Snorra-Eddu, en líka í efni frá Bretlandseyjum frá drúídum. Mér finnst gaman að bera þennan boðskap áfram þannig að næstu kynslóðir þekki hann.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.