Bræðslan, LungA og Franskir dagar á sínum stað

Hátíðirnar Bræðslan, LungA og Franskir dagar verða á sínum stað í sumar. Skógardagurinn mikli og Eistnaflug falla hins vegar niður annað árið í röð.

Tónlistarhátíðin Bræðslan verður haldin á Borgarfirði eystra 24. júlí. Samkvæmt upplýsingum frá skipuleggjendum mun dagskrá hennar verða kynnt í næstu viku auk þess sem miðasala fer þá af stað.

Um sömu helgi verða Franskir dagar haldnir á Fáskrúðsfirði, en hátíðin fagnar 25 ára afmæli. Byrjað er að kynna skemmtikrafta til leiks og hefur söngkonan Jóhanna Guðrún verið staðfest. „Franskir dagar er heppin hátíð sem á frábæra bakhjarla og verður dagskrá hátíðarinnar sú glæsilegasta í sögu hennar,“ segir Daníel Geir Moritz, framkvæmdastjóri.

LungA á Seyðisfirði verður styttri og með öðru sniði en venjulega en haldin 14. – 17. júlí. Listasmiðjur verða í þrjá daga en engin gisting innifalin af sóttvarnaástæðum. Henni lýkur svo með tónleikum. Byrjað verður að kynna hátíðina 1. júní og opnað fyrir sölu miða á tónleikana í kjölfarið.

Þungarokkshátíðinni Eistnaflugi í Neskaupstað og Skógardeginum mikla á Hallormsstað var aflýst í mars. Pétur Halldórsson, upplýsingafulltrúi Skógræktarinnar, segir að undirbúningur dagsins taki vanalega marga mánuði og þessu ákvörðun því verið tekin því aðeins hafi byrjað að rætast úr óvissunni síðustu daga.

Undirbúningur er í gangi fyrir fleiri hátíðir í sumar, svo sem Hernámsdaginn á Reyðarfirði og Vopnaskak á Vopnafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.