
Bræðslan, LungA og Franskir dagar á sínum stað
Hátíðirnar Bræðslan, LungA og Franskir dagar verða á sínum stað í sumar. Skógardagurinn mikli og Eistnaflug falla hins vegar niður annað árið í röð.Tónlistarhátíðin Bræðslan verður haldin á Borgarfirði eystra 24. júlí. Samkvæmt upplýsingum frá skipuleggjendum mun dagskrá hennar verða kynnt í næstu viku auk þess sem miðasala fer þá af stað.
Um sömu helgi verða Franskir dagar haldnir á Fáskrúðsfirði, en hátíðin fagnar 25 ára afmæli. Byrjað er að kynna skemmtikrafta til leiks og hefur söngkonan Jóhanna Guðrún verið staðfest. „Franskir dagar er heppin hátíð sem á frábæra bakhjarla og verður dagskrá hátíðarinnar sú glæsilegasta í sögu hennar,“ segir Daníel Geir Moritz, framkvæmdastjóri.
LungA á Seyðisfirði verður styttri og með öðru sniði en venjulega en haldin 14. – 17. júlí. Listasmiðjur verða í þrjá daga en engin gisting innifalin af sóttvarnaástæðum. Henni lýkur svo með tónleikum. Byrjað verður að kynna hátíðina 1. júní og opnað fyrir sölu miða á tónleikana í kjölfarið.
Þungarokkshátíðinni Eistnaflugi í Neskaupstað og Skógardeginum mikla á Hallormsstað var aflýst í mars. Pétur Halldórsson, upplýsingafulltrúi Skógræktarinnar, segir að undirbúningur dagsins taki vanalega marga mánuði og þessu ákvörðun því verið tekin því aðeins hafi byrjað að rætast úr óvissunni síðustu daga.
Undirbúningur er í gangi fyrir fleiri hátíðir í sumar, svo sem Hernámsdaginn á Reyðarfirði og Vopnaskak á Vopnafirði.