BRJÁN tekur í notkun nýja félagsaðstöðu

BRJÁN (Blús-, rokk og jazzklúbburinn á NEsi) tekur á morgun í notkun nýja félagsaðstöðu þar sem Tónspil var áður með verslun. Formaður segir metnaðarfullar hugmyndir uppi um nýtingu hússins. Þá stendur félagið fyrir hátíðinni Austur í rassgati á laugardag.

SÚN keypti húsið í vor þegar ljóst var að verslunarrekstrinum yrði hætt með það í huga að gera það að félagsaðstöðu BRJÁN, sem hefur verið án húsnæðis eftir að hafa selt Blúskjallara sinn fyrir nokkrum árum. BRJÁN leigir húsnæðið framvegis af SÚN.

Á morgun fær BRJÁN neðri hæð hússins, þar sem verslunin var áður, afhenta. Næsta vor verður efri hæðin afhent en þar er í dag rekin gistiþjónusta.

Fyrsti viðburðurinn í nýja húsnæðinu verður aðalfundur félagsins þar sem framtíðarnýting er á dagskrá. „Það eru ýmsar hugmyndir uppi svo sem að koma upp aðstöðu fyrir fólk sem vill gera taka upp demó, æfingaaðstaða fyrir hljómsveitir og svo vantar stað fyrir minni tónlistarviðburði yfir vetrarmánuðina,“ segir Pjetur St. Arason, formaður BRJÁN.

Hann segir tilkomu húsnæðisins skipta miklu fyrir félagið. „Að fá æfingahúsnæði í bæinn breytir öllu fyrir bæði BRJÁN og bæjarfélagið. Þetta er stærra heldur en Blúskjallarinn svo það gefur okkur meiri möguleika. Það hefur lengi verið öflugt tónlistarlíf hér í Neskaupstað sem við sjáum meðal annars á því að hátt í tíu tónlistarmenn hafa gefið út síðastliðin tvö ár.“

Á laugardagskvöld stendur félagið fyrir tónlistarhátíðinni Austur í rassgati þar sem fjórar austfirskar sveitir koma fram. Hátíðin er nú haldin í þriðja skipti og fór upphaflega af stað sem pönkhátíð þótt hljómsveitirnar nú komi úr fleiri áttum.

Aðalnúmerið á föstudag verða Dúkkulísurnar en hinar þrjár sveitirnar koma allar úr Neskaupstað, pönkbandið DDT skordýraeitur, Dusilmennni sem komust í úrslit Músiktilrauna í vor og tilraunapoppsveitin Tilurð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.