Byggðaráðstefna ungra Austfirðinga: Okkur þykir öllum vænt um Austurland

Félagið Ungt Austurlands, sem stofnað var í október, gengst fyrir byggðaráðstefnu um framtíð fjórðungsins á Borgarfirði helgina 8. – 9. apríl. Markmið ráðstefnunnar er að fá ungt fólk til að hafa áhrif á stefnumótun fyrir svæðið og ræða saman á jafningjagrundvelli.


„Við erum búin að fá ótrúlega flottan hóp af fyrirlesurum til að flytja erindi. Við héldum undirbúningsfund á Borgarfirði í haust þar sem fram komu óskir um fyrirlesara og erinda sem dagskráin nú byggir á,“ segir Margrét Árnadóttir, formaður félagsins.

Hvatinn að fundinum á Borgarfirði þar sem félagið var stofnað var ákall um að ungir Austfirðingar létu í sér heyra, en nærveru þeirra hefur þótt skorta á ráðstefnum og fundum um framtíð fjórðungsins.

„Það er vilji okkar sem erum í stjórninni að okkar kynslóð taki ábyrgð og láti í sér heyra. Raddir okkar allra eru jafn mikilvægar. Okkur þykir öllum vænt um Austurland og því á þetta að skipta okkur öllu máli, hvort sem við erum aðflutt eða innfædd.

Yngri kynslóðin heldur oft að svona málefni koma þeim ekki við en þar skjátlast þeim því við erum framtíðin og þurfum að fara að aðstoða þá eldri sem eru að vinna að því að bæta samfélagið okkar. Þau eru að hlusta og við þurfum að láta í okkur heyra.“

Meðal frummælenda á ráðstefnunni verða Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Pétur Markan, sveitarstjóri í Súðavík, Margrét Gauja Magnúsdóttir æskulýðsfrömuður og Þórunn Ólafsdóttir, Austfirðingur ársins 2016 sem starfað hefur í málefnum flóttamanna. Skráningu á ráðstefnuna lýkur á morgun.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar