Byrjaði að rækta hunda og áttaði sig svo á að engin var gæludýraverslunin

Kristjana Jónsdóttir, eða Kiddý, opnaði árið 2010 litla verslun, Gæludýraverslun Kiddýjar. Hún ætlaði fyrst að þjóna eigin áhugamáli, hundahaldi og hundaræktun með að selja þar fóður, sjampó og fleira í þeim dúr. Verslunin er enn til staðar en margföld að stærð.

„Við ræktum ljósa Golden Retriever hunda, sem eru mjög eftirsóttir. Það er ótrúlega mikil vinna og umstang í kringum þetta.

Þegar ég fékk mér fyrsta hundinn þá áttaði ég mig á því að það var engin gæludýraverslun á Egilsstöðum. Ég spurði manninn minn hvernig honum litist á að ég setti upp smá lager í einu herberginu: fóður, bursta og kannski sjampó.

Ég sá að það kom á hann svipurinn: Ein hugmyndin enn! Og svarið var: Come on, það er enginn að fara að kaupa sjampó og hundafóður hér, hundar á Héraði borða matarafganga!

En ég gerði þetta nú samt og fyrr en varði var ég farin að höndla með gæludýravörur í hjáverkum. Þetta spurðist út og vatt hratt upp á sig. Fólk setti það ekki fyrir að aka út í sveit til að kaupa eitthvað gott fyrir dýrin sín. Ég held að Bergi hafi þótt orðið alveg nóg um umferðina á hlaðinu og í gegnum húsið, en hann hafði lúmskt gaman að þessu líka,“ segir Kristjana um upphafið.

Verslunin fluttist síðar í Egilsstaði. Kristjana tók við umboði fyrir Landstólpa sem síðan keypti reksturinn. Hún hefur síðan verið verslunarstjóri.

Opnaði símaskrána og endaði á Seyðisfirði


Kristjana er ævintýramanneskja eins og sagan af því hvernig hún fluttist austur á firði frá Akureyri árið 1999 ber með sér.

„Ég var 24 ára og nýbúin að eignast barn. Ég hafði unnið á leikskóla í nokkur ár og líkaði það vel, þannig að það má segja að lífið hafi blasað við mér. En eitthvað innra með mér sagði mér að það væri kominn tími á breytingar, ég var ekki alveg sátt.

Einn daginn tók ég gömlu, þykku símaskrána og valdi af handahófi stað til að opna hana. Upp kom Seyðisfjörður og ég var ekkert að bíða með það, hringdi á bæjarskrifstofuna og það svaraði mér maður að nafni Jóhann, sem var mjög vinsamlegur. Hann sagði að ég hefði hringt alveg á réttum tíma, það vantaði leikskólakennara og það væri húsnæði í boði fyrir réttu manneskjuna.

Ég bjó þá með barnsföður mínum, en ákvað engu að síður að pakka niður og flytja. Það yrði bara að koma í ljós hvort sambandið héldi. Ég setti búslóðina á flutningabíl og skömmu síðar ókum við af stað, ég og sonur minn Felix Freyr, sem svaf vært í burðarrúminu í aftursætinu.

Þegar ég var að koma niður af Fjarðarheiðinni mætti ég flutningabílnum og hugsaði með mér að nú hefði ég verið aðeins of sein og dótið bara á götunni fyrir framan húsið. En nei aldeilis ekki, þegar ég kom á staðinn var búið að bera alla búslóðina inn í húsið. Seyðfirðingar eru gott fólk og telja ekki eftir sér smámuni þegar þarf að aðstoða náungann. Þetta voru óvæntar og hlýlegar móttökur, sem ég gleymi aldrei.“

Hún flutti síðar upp í Egilsstaði og kynntist manninum sínum, Ingibergi Gunnarssyni frá Rangá í Hróarstungu. Þau búa þar í dag en vinna á Egilsstöðum.

Gleymdi heimskunni


Þegar Kristjana var farin að reka verslunina fann hún að sig vantaði meiri þekkingu og skráði sig því í stjórnendanám. „Ég var fyrir löngu búin að gefa það upp á bátinn að ég gæti lært. Ég reyndi að fara í nám í hinu og þessu, meðal annars í hjúkrun, en ég fann mig aldrei og var búin að sætta mig við að ég væri bara heimsk.

Svo einn daginn er ég að vafra á Netinu og sé auglýst nám í stjórnun, eitthvað sem væri mjög gagnlegt fyrir stjórnendur fyrirtækja. Þetta var fjarnám við Háskólann á Akureyri. Ég hef sennilega verið búin að gleyma hvað ég var heimsk, því ég skráði mig í námið án umhugsunar.

Það runnu á mig tvær grímur þegar til alvörunnar kom, en mér til mikillar furðu þá virtist allt í einu sem ég gæti lært. Ég veit ekki hvað breyttist, hvort það var netumhverfið og fjarnámið, eða hvort ég hafði þroskast eitthvað, en mér gekk bara alveg prýðilega og lauk náminu á tveimur árum,“ segir Kristjana sem síðar hefur bætt við sig fleiri réttindum.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.