Djúpivogur skútuhöfn Norður-Atlantshafsins?

Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, telur góðan kost að gera Djúpavog að skútuhöfn á Norður-Atlantshafi og útbúa þar einnig aðstöðu fyrir skútur í vetrarlegu. Hann hvetur ríkisvaldið til að styðja við slíkt verkefni. Pétur segir Djúpavog liggja landfræðilega vel við skútusiglingum og eftir ýmsu sé að slægjast því skútueigendur séu gjarnan sterkefnaðir ferðamenn.

skta.jpg

Grein Péturs Rafnssonar sem birtist í Morgunblaðinu:

 

,,Á DJÚPAVOGI er tækifæri til að útbúa eina bestu aðstöðu á Íslandi fyrir skútur og þótt víðar væri leitað og þá ekki eingöngu yfir siglingatímann, heldur einnig fyrir skútur í vetrarlegu. Ísland er að mestu ónumið svæði fyrir siglingafólk, en með vel skipulögðu markaðsátaki verður hægt að koma skútusiglingum við Ísland inn á kortið hjá siglingafólki í heiminum, og þar stendur Djúpivogur vel að vígi vegna landfræðilegrar legu og einstakra hafnarskilyrða.

Það er eftir miklu að sækjast, því skútueigendur eru einn efnaðasti hópur ferðamanna sem um ræðir. Þeir þurfa margvíslega þjónustu fyrir utan kaup á vistum, olíu og annarri almennri þjónustu, og þar á meðal hagkvæma, góða og örugga vetrarlegu. Vetrarlega fyrir skútur er mjög tekjumyndandi fyrir viðkomandi höfn og bæjarfélag og það skýrir af hverju margar litlar og stórar hafnir í Evrópu og víðar keppast við að ná þessum hópi ferðamanna til sín.

Það mun sannast að vogskorin strandlengja Íslands er gósenland fyrir siglingafólk. Djúpivogur hefur staðsetninguna og aðstöðuna. Það kostar tiltölulega litla fjármuni að bæta hana frekar. Höfnin í Gleðivík býður upp á að gera þar fyrsta flokks þjónustuaðstöðu fyrir skemmtibátaþjónustu. Góður húsakostur er þar sem fellur vel að þessari starfsemi og þar er einnig frábært svæði til að geyma skútur, sérstaklega fyrir ofan hafnargarðinn þar sem hefur verið sprengt gott geymslusvæði út úr berginu.

 

Í markaðsátaki eru nöfn og heiti mikilvæg og bara nöfnin ein; Djúpivogur, »The deep bay«, og Gleðivík, »The merry bay«, eru stórkostleg og falla aldeilis vel að kynningunni. Þriggja til fimm ára markaðsátak mun skila árangri, en slíkt markaðsátak þarf að undirbúa af kostgæfni. Nú er lag, eins og sagt er, því mjög er horft til eflingar ferðaþjónustunnar og fólk er að átta sig æ betur á tekjumöguleikum hennar. Tækifærin eru alls staðar. Það er nálgunin sem skiptir máli.

 

Einn helzti kosturinn við þessa hugmynd er að hún er umhverfisvæn og framkvæmd hennar útheimtir mjög takmarkaðar fjárfestingar, því þær eru að mestu fyrir hendi á Djúpavogi. Hafnarsvæðið í Gleðivík nýtist betur og verður atvinnuskapandi. Það þarf að laga svæðið að þessari sérhæfðu starfsemi. Ég vil hvetja áhugasama menn og konur á Djúpavogi til að láta slag standa og undirbúa verkið!

 

Nauðsynlegt er fyrir áhugafólk og stjórnvöld á Djúpavogi að leita aðstoðar til að hleypa verkefninu af stað. Fyrsta skrefið gæti verið að fara í markaðskönnun og skoða svæði t.d. í Noregi, Þýskalandi, Hollandi og Bretlandi. En til þess þarf fjármagn, sem ekki liggur á lausu þessa dagana. Það eru til ýmsir möguleikar hjá stofnunum eins og t.d. Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ferðamálastofu, Atvinnuþróunarsjóði Austurlands og Byggðastofnun, sem samkvæmt lögum er ætlað að efla atvinnulíf landsbyggðarinnar, sem gætu stutt við verkið og mögulegt er að leita aðstoðar hjá ráðuneyti ferðamála eða beint til fjárlaganefndar Alþingis.

 

Eins er mikilvægt að komast í samband við ýmis félög sem starfa í þessari grein, en siglingasambönd eru víða sterk og mikill fjöldi er af siglingablöðum um allan heim. Það er alltaf verið að leita að nýjum svæðum fyrir skútur sagði mér leiðsögumaðurinn Steingrímur Gunnarsson, vinur minn og bekkjarbróðir úr MA, en hann þekkir þennan skútuheim afar vel. Þökk sé Steingrími fyrir hans mikla áhuga og framsýni í nýsköpun í ferðaþjónustu. Skútuhöfn dregur að aðra ferðamenn. Sú er reynslan erlendis.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar