Djúpavogsbúar ánægðir með að fá nýtt afdrep í Faktorshúsinu

Faktor brugghús, ölstofa og kaffihús, opnaði síðasta vor í Faktorshúsi á Djúpavogi, einu elsta timburhúsi landsins. Opnunin var enn einn áfanginn í tæplega 180 ára sögu hússins. Enn er þó aðeins hluti hússins kominn í notkun.

Faktorshúsið, einnig kennt við Örum- og Wulf, var byggt árið 1848. Það er næst elst þeirra húsa sem uppi standa á Djúpavogi og með elstu timburhúsum landsins. Það er í hópi 16 bygginga á Djúpavogi sem reistar voru fyrir árið 1940 og þykja merkilegar í menningarsögulegu tilliti.

Það stendur við hlið Löngubúðar, elsta húss Djúpavogs og skammt frá fleiri merkum húsum á borð við Geysi, sem hýsir skrifstofur Múlaþings og fleiri fyrirtækja og stofnana. Þessi hús eru ásamt fleirum innan verndarsvæðis í byggð.

Húsið var friðað vegna aldurs árið 1990. Árið 2007 hófst endurgerð hússins sem lauk að mestu snemma á þessu ári þegar brugghúsið opnaði í lok apríl. Endurgerðinni er ekki lokið því alls eru fjórar hæðir í húsinu. Starfsemin er á jarðhæðinni, undir henni er kjallari og yfir henni er heil hæð. Fjórða hæðin nær síðan yfir hluta þeirrar hæðar. Fram undan eru viðræður um áframhaldandi uppbyggingu.

Mikil saga


Djúpivogur er forn verslunarstaður, sú saga nær aftur til ársins 1589 þegar kaupmenn frá Hamborg fengu verslunarleyfi frá Danakonungi. Þar með hófst trúlega þéttbýlismyndun á Djúpavogi. Næsti konungur veitti sínum kaupmönnum einokunarrétt á Íslandsverslun og tóku þeir trúlega yfir þýsku byggingarnar.

Þær eru nú horfnar en um miðja nítjándu öld réðust dönsku kaupmennirnir í framkvæmdir, bæði breytingar á Löngubúð og byggingu Faktorshússins. Það var íverustaður verslunarstjórans, sem nefndist faktor. Það var á þessum tíma Niels Weyvadt sem var faktor á Djúpavogi, en hann flutti síðar að Teigarhorni og lét byggja annað glæsilegt hús fyrir sig og fjölskylduna.

Hann starfaði fyrir danska verslunarfélagið Örum & Wulff sem stundaði verslun víða um land, byggði meðal annars húsið sem hýsir Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði og Kaupvang á Vopnafirði. Á Eskifirði byggði félagið einnig hús sem síðar var flutt að Vestdalseyri í Seyðisfirði og síðan á Akureyri, þar sem það stendur enn og kallast Gránufélagshúsið og hýsir veitingastaði. Örum & Wulff rak verslun á Djúpavogi frá árinu 1818 til 1920, en á meðal verslunarstjóra þess þar var Hans Kristján, fyrsti þeldökki maðurinn sem vitað er til að hafi komið til Íslands.

Eftir danska tímann tók Kaupfélag Berufjarðar við húsinu og þar bjó kaupfélagsstjórinn. Kaupfélagið átti húsið þar til það hætti starfsemi árið 1987. Í gegnum tíðina hýsti það margvíslega starfsemi svo sem verslanir, afgreiðslur, geymslur, íbúðir, bókasafn, félagsmiðstöð og rafmagnsverkstæði. Djúpavogshreppur keypti húsið árið 1997.

Viðtökurnar góðar


Á veggjum brugghússins er sögu hússins gerð skil með gömlum myndum. „Elís Pétur (Elísson) sem stýrir Beljanda (brugghúsi) er annt um að halda sögu hússins á lofti og fékk þess vegna þessar myndir til að sýna hana,“ segir Íris Dögg Scheving Hákonardóttir, sem sér um markaðsmál Faktors brugghúss.

Hún segir Djúpavogsbúa hafa tekið ölstofunni vel. „Þeir eru ánægðir með að fá nýtt afdrep og við höfum reynt að vera með viðburði hér eins og trúbadora og bingókvöld. Síðan höfum við fengið fjölda ferðamanna og farþega úr skemmtiferðaskipum.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar