Djúpavogskirkja nýtt undir tónleikahald

Fyrstu tónleikarnir í röðinni Sumartónleikar Djúpavogskirkju verða haldnir í kvöld þegar Guðmundur R. kemur þar fram ásamt hljómsveit. Tónleikahaldari segir framúrskarandi hljómburð í kirkjunni og vonast til að heimafólk taki vel í viðburðahaldið.

„Ég hef bæði fundið það og tónlistarfólk sem hefur komið til að spila, jafnt kórar sem popparar, hefur talað um að það sé góður hljómburður í kirkjunni,“ segir Kristján Ingimarsson á Djúpavogi sem stendur að baki tónleikaröðinni.

Hann er vanur að spila í kirkjunni, hafandi verið organisti þar síðustu ár. Þar kviknaði hugmyndin hjá honum að nýta kirkjuna oftar undir tónleika.

„Hún stendur mikið til auð á sumrin. Mig langaði til að nýta kirkjuna meira og um leið hafa eitthvað meira um að vera á staðnum. Það er langt fyrir okkur sem búum á Djúpavogi til næstu daga og stundum veigrar fólk sér við að keyra langt á tónleika. Með þessu reynum við að færa Djúpavogsbúum fleiri tækifæri til að sækja tónleika,“ segir Kristján.

Fyrstu tónleikarnir verða í kvöld en á þriðjudag kemur OLGA Vocal ensemble fram. Þriðju tónleikarnir eru 18. júlí þegar Hildur Vala og Jón Ólafsson mæta en Una Torfa er síðust í röðinni 30. júlí.

„Við reyndum að hafa þetta fjölbreytt en einfalt því við höfum hvorki stór hljóðkerfi né ljósasýningar. Fólk fór að hafa samband við okkur um leið og við vorum búin að ákveða að hafa tónleikaröðina og sýndi áhuga á að spila.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar