Dönskuáhuginn veltur mikið á kennaranum

Vibeke Lund var síðasta skólaár farkennari í dönsku í Fjarðabyggð og Múlaþingi. Hún segir að þótt oft sé talað illa um dönskuna fylgi hugur ekki þar fyllilega máli því mikill áhugi sé hérlendis á danskri menningu og margir eigi góðar minningar um ferðalög til Danmerkur. Áhugi á dönsku konungsfjölskyldunni kom henni á óvart.

Danska menntamálaráðuneytið sendir árlega þrjá danska kennara til Íslands. Af þeim fer einn út á land og í ár var röðin komin að Austurlandi. Þeim er ætlað að styðja við dönskukennara, einkum talþjálfun og koma með nýjar hugmyndir inn í kennsluna.

Það er nokkur áskorun því kynslóð fram af kynslóð hefur það verið sport meðal nemenda að tala niður dönskuna sem leiðinlegasta fagið í skóla.

„Vandamálið er að ef þú talar við 13-14 ára gamlan krakka þá er áhuginn meiri á að fara út á hjólabretti með vinunum heldur en hlusta á mig segja að það sé gott að kunna dönskuna vilji fólk síðar læra eða starfa í Danmörku. Við heyrðum það líka að nemendurnir lituðust oft af viðhorfi foreldranna.

Sumum fannst danskan erfið og það drap áhugann enn frekar. Það átti sérstaklega við ef kennarinn var ekki góður í dönsku. Úrvalið er ekki alltaf mikið, stundum er leitað til fólks sem hefur búið í Noregi eða Svíþjóð í nokkra mánuði. Í einum skólanum voru samskipti mín við dönskukennarann á ensku.

Annars staðar var staðið vel að málunum. Meðal ég var á Reyðarfirði voru þar danskir miðvikudagar í 7. – 10. bekk þar sem öðrum námsgreinum og áhugasviðum var blandað inn í dönskukennsluna,“ segir Vibeke.

Málþroski beðið hnekki í Covid


„Ég hélt að danskan væri skyldufag en komst að því að lagalega geta skólarnir valið milli þess að kenna dönsku, norsku eða sænsku. Trúlega er það hefðin sem ræður miklu um valið. Það kom mér óvart að almennt var dönskukunnáttan slakari en ég átti von á. Flestir nemendanna voru í vandræðum með að raða saman þremur setningum eða spyrja einfaldrar spurningar án hjálpar.

Síðan heyrði ég frá íslensku kennurunum að krakkarnir væru líka í vandræðum með íslenskuna, að það væri eins og eitthvað hefði gerst í Covid-faraldrinum og þau misst niður ritfærnina,“ bætir hún við.

Nikolai greifi


Hún segir hins vegar flesta nemendur áhugasama, einkum um danska menningu sem þau hafi jákvæða reynslu af. „Flestir krakkanna voru áhugasamir og fannst áhugavert að heyra alvöru Dana tala. Við töluðum um menningu landanna, hvað væri til dæmis líkt eða ólíkt við jólahefðirnar. Ég var líka að reyna að spila fyrir þau nýlega danska tónlist eða sýna þeim nýlegt sjónvarpsefni. Það vakti oft áhuga.“

Áhugi unglingsstúlkna á konungsfjölskyldunni kom Vibeke sérstaklega á óvart. „Ég var hissa, hafa þau áhuga á Margréti drottningu. En þá var það Nikolai, greifi af Monpezat. Hann er sonur Jóakims prins, yngri sonar Margrétar og Alexöndru greifynju sem kom frá Hong Kong. Nikolai þykir mjög myndarlegur og hefur starfað sem fyrirsæta sem vakti áhuga stelpnanna.“

Aðspurð um af hverju máli skipti að tala dönsku, í heimi sem sífellt meira byggist á ensku, svarar Vibeke: „Við gætum vissulega notast bara við hana en ég held að við yrðum fátækari fyrir vikið. Ég veit að fólk er gjarnt á að skipta yfir í ensku ef þú talar málið sem þú ert að reyna að tjá þig á ekki nógu vel, en mörgum finnst heillandi að fólk reyni. Því meira sem þú kannt í viðkomandi tungumáli því betur kynnistu fólkinu og menningunni.“



Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.