Dúxinn úr ME langar að helga sig náttúruvernd

Hann hefur enga hugmynd um hvers vegna hann brennur svo mjög fyrir náttúrunni og náttúruvernd í víðum skilningi en Unnar Aðalsteinsson, dúx úr Menntaskólanum á Egilsstöðum í vor, hyggst helga sig þeim málum í framtíðinni.

„Ég er búinn að sækja um í framhaldsnám. Annars vegar í líffræði í Háskóla Íslands og hins vegar í náttúru- og umhverfisfræði í Landbúnaðarháskólanum. Ég hef mjög mikinn áhuga á líffræði hvers kyns en hvaðan ég hef þann áhuga veit ég ekki. Það er enginn svona í kringum mig sem hefur það sem áhugamál mikið en hins vegar margir sem ég þekki sem stunda útivist af ýmsu tagi og þetta tengist auðvitað.“

Sjálfur er Unnar enginn aukvisi í útivist og hefur klifið nokkur fjöll samhliða lengri gönguferðum en hann tók einmitt nokkra útivistaráfanga á menntaskólagöngunni og segir það hafa opnað augu hans fyrir hve náttúran sé dýrmæt auðlind. Fram að þeim tíma þá fór hann í göngur með öðrum en áhuginn blossaði ekki upp að ráði fyrr en þá.

„Ég hef klifið Snæfellið og Sandfellið og einnig í lengri gönguferðir eins og um Víknaslóðir síðasta haust og Fossaleiðina frá Óbyggðasetrinu. Mér líður alltaf vel í slíkum ferðum í náttúrunni og fyllist alltaf af einhverjum neista þegar maður stendur upp á fjalli og tekur inn útsýnið. Maður er svo lítill í öllu því samhengi en þetta er sannarlega lífsfylling að einhverju leyti fyrir mig.“

Unnar segir að þó líffræðin hafi lengi heillað þá sé umhverfið og sérstaklega umhverfisvernd  og loftlagsmál að ná sífellt sterkari tökum á sér.

„Ég fór um jólin til Nýja-Sjálands sem dæmi og þá var þar búið að rigna linnulítið í átta mánuði í senn sem var mjög óvenjulegt á þeim slóðum. Hér heima er leiðinlegt að vitna hvað jöklarnir okkar eru að hopa mikið og fljótt og ég lærði mjög mikið um það þegar ég starfaði hjá Vatnajökulsþjóðgarði í fyrrasumar. Það er verk að vinna að snúa þessari þróun við og mig langar að leggja mitt af mörkum þar með einhverjum hætti.“

Unnar unnir sér hvað best í náttúru Íslands og notar hvert tækifæri til að komast utandyra. Mynd aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.