Eastwood blekkti ekki Austfirðinga
Ekki er vitað til þess að nokkur hafi látið blekkjast af aprílgabbi Austurgluggans um að Clint Eastwood væri að leita að leikurum í nýjustu stórmynd sína sem tekin yrði á Austurlandi. Boðað var til prufa á Hótel Héraði í gær.
„Neibb,“ var svar Ragnars Sigurðssonar, ritstjóra Austurgluggans þegar Agl.is innti hann eftir því hvort nokkur hefði mætt í prufurnar. Nokkrir aðrir fjölmiðlar sögðu frá gabbinu en gerðu sér vel grein fyrir að um plat væri að ræða.
Eins og Agl.is greindi frá í gær átti Eastwood að hafa verið eystra að undanförnu við að leita að hentugum tökustöðum fyrir mynd sem byggði á tölvuleiknum World of Warcraft.
Fleiri fjölmiðlar buðu upp á leikaraprufur. Fréttastofa Sjónvarpsins sagði frá því að tökur á nýjustu stórmynd Jason Stathams hefðu staðið yfir í Lundarreykjadal og leitað væri að leikurum í síðasta atriðið sem yrði tekið upp hérlendis, þorrablót.