„Ef ein manneskja tengir við tónlistina mína þá er ég sátt“

„Þetta er önnur platan sem ég og Stefán Örn Gunnarsson gerum saman. Hann er algert náttúrubarn í tónlist og við vinnum mjög vel saman,“ segir tónlistarkonan Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir um plötu sína Pipedreams sem er plata líðandi viku á Rás 2.

Aldís Fjóla segir ævintýrið hafa byrjað með lagi sem þau Stefán Örn sendu inn í söngvakeppnina í ár en komst ekki áfram. Eftir það hafi þau haldið áfram og útkoman orðið Pipedreams, fimm laga EP plata sem leit dagsins ljós á vormánuðum. Fyrri plata Aldísar Fjólu ber nafnið Shadows og kom út árið 2020.

„Við ákváðum að halda ákveðnu þema á þessari plötu og segja má að hún sé innblásin af 90´s Grunge rokki sem Magni bróðir ól mig upp á í kjallaranum heima í Brekkubæ,“ segir Aldís Fjóla.

Lögin á plötunni eru öll eftir Stefán Örn Gunnlaugsson og Aldísi Fjólu og þau sömdu einnig textana. Hljómborð, synthar og bassi voru í höndum Stefáns Arnar, Friðrik Jónsson leikur á gítar, Halldór Sveinsson á fiðlu og Kristófer Nökkvi Sigurðsson slær trommurnar. Hljóðblöndum var í höndum Stefáns Arnar og hljómblöndun/Masteringu sá Sigurdór Guðmundsson hjá Skonrokk Studios um.

„Við hlustuðum á allt það sem hreyfði við mér á gelgjunni þegar allar tilfinningar voru að springa inn í manni. Dæmi um það eru lög eins og Brazen (Weep) með Skunk Anansie, Exit Music (for a film) með Radiohead og Rearviewmirror með Pearl Jam. Ég fann textabrotin sem ég skrifaði aftur og aftur í dagbókina mína á þessum tíma. Það er magnað hvað þetta situr enn með manni einhvern veginn. Ég varð í alvöru bara 16 ára aftur, grenjandi inn í einhverju herbergi á heimavistinni. Ekki að þetta séu allt einhverjir brjálaðir gelgjutextar, en samt unnir út frá þessum myndrænu tilfinningum sem voru svo sterkar á þessum tíma,“ segir Aldís Fjóla.



Þráði að lenda í ástarsorg til að tengja við alla dramatísku textana

Aldís Fjóla segir textana sína yfirleitt tengjast tilfinningalegu uppgjöri. „Einhverju sem ég er að vinna úr, eða tilfinningum sem maður horfir á og skilur ekki af hverju maður er enn fastur í.

Sumir skrifa sig frá slíku en ég sem texta og öskra þá svo í míkrófóninn. Ég held að fólk skapi yfirleitt út frá sínu lífi og tilfinningum, nema þá þegar ákveðið sé að skella í fyrir fram ákveðinn poppslagara. Auðvitað er ekki öll tónlist hræðilega dramatísk en tilfinningar eru það sem helst nær manni í tónlist að mínu mati. Ég ætlaði alltaf að verða tónlistarkona og man þegar ég var 16 ára sveitastelpa og þráði að lenda í brjálaðri ástarsorg og tilfinningarússíbana til þess að tengja við alla dramatísku textana,“ segir Aldís Fjóla og skellihlær.



Draumurinn að bæta við lögum og gefa út á vínyl

„Þetta byrjaði allt með því að við sendum inn lag í söngvakeppnina sem komst ekki áfram. Við héldum svo áfram að semja og þetta er útkoman. Hljómsveitin sem spilar alltaf með mér spilaði líka inn á plötuna. Við það kom meira „groov“ inn og þeir eiga sína kafla – óviðeigandi fiðlusóló, brjálaðan gítar og klikkaðan trommuslátt. Við erum öll mjög stolt og hrærð yfir þessu barni okkar. Platan er aðeins á stafrænum miðlum eins og er en draumurinn er að skapa önnur fimm lög og gefa út á vínyl með þessum sem komin eru. Fyrsta platan mín, Shadows, kom út á vínyl og það er bara eitthvað svo geggjað að halda á barninu sínu í vínilformi.“


Blanda af gríðarlegum ótta og sjúklegu stolti

Aldís Fjóla segir það ólýsanlega tilfinningu að upplifa þegar verkin sem hún hefur lagt allt sitt í að skapa líta loks dagsins ljós. „Það er blanda af gríðarlegum ótta yfir því að vera dæmdur og sjúklegu stolti yfir því að hafa bara getað þetta, komið þessu út. Ég er alltaf við það að rifna úr stolti þegar ég stend á sviði með fólkinu sem spilar með mér og hugsa; Þetta bjuggum við bara til!“

Poppfræðingurinn Arnar Eggert Thoroddsen ritaði dóm um plötuna á vef ríkisútvarpsins í gær. Í samantekt hans segir; „Aldís er góð rokksöngkona og jafnhattar slíkar æfingar eins og að drekka vatn. Þetta verk er til muna hnitmiðaðra en Shadows, lögin eru meira og minna í svipuðu sniðmáti og það virkar vel í því samhengi sem platan er í.“

Aldís Fjóla segir að sér þyki gaman að lesa hvernig fólk túlkar list hennar. „Þú hlustar á lag og upplifir það kannski allt öðruvísi en ég. Sumir dansa yfir ákveðnu lagi meðan ég myndi kannski gráta yfir því. En, ef ein manneskja tengir við tónlistina mína og finnst hún geggjuð, þá er ég sátt.“

Aðspurð hvort Aldís Fjóla hafi fylgt plötunni eftir með tónleikahaldi segir hún; „Ég er fyrst núna að fá rými til þess að fylgja henni eftir. Það voru tónleikar í Iðnó í vor. Ég hef svo verið gestur hjá Jónasi Sig heima á Borgarfirði og spilaði einnig á fimmtudagsforleiknum fyrir Bræðsluna. En það er spennandi vetur fram undan þar sem ég stefni á að halda ýmis konar tónleika og halda áfram að skapa tónlist með mínu uppáhalds fólki.“

 

Ljósmynd: itorfa

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.