„Ég ekki Suzuki kennari, meira Harley Davidson“

Charles Ross, tónlistarkennari og doktor í tónsmíðum, hefur sett svip sinn á tónlistar- og menningarlíf á Austurlandi svo um munar í nærri fjóra áratugi. Hann var aðeins 21 árs þegar hann flutti frá Bretlandi til Íslands og gerðist tónlistarkennari á Reyðarfirði og Eskifirði. Þar bjó hann í fimm ár en flutti þá til Seyðisfjarðar þar sem hann bjó í eitt ár og kenndi tónlist við grunnskólann þar. Þaðan lá leiðin upp á Hérað. Í 30 ár kenndi hann við tónlistarskóla Egilsstaða og Fellabæjar, auk þess sem hann hefur tekið virkan þátt í tónlistarlífinu.

Charles er úr litum bæ sunnarlega á vesturströnd Skotlands en útskýrir að í honum sé blandað blóð: „skoskt, írskt, franskt og allskonar.“

Hann byrjaði 4-5 ára gamall að læra á píanó, skipti svo yfir á fiðlu og síðan víólu. „Ég elskaði hinn djúpa hljóm víólunnar og hugsaði líka með mér að það væru miklu færri sem spiluðu á víólu en fiðlu og það yrði auðveldara að fá stöðu í sinfóníunni.“

Um 13-14 ára aldurinn fór hann að stunda tónlistarnám í Glasgow, sem er um 50 km frá Prestwick. Þangað fór hann á hverjum laugardegi og gekk um í borginni í hléum. „Ég fékk smá peningaupphæð frá foreldrum mínum í hvert skipti til að kaupa nesti, en eyddi þeim í plötubúðum sem ég fann á rölti mínu um borgina.“

Að læra á nýtt hljóðfæri er eins og læra nýtt tungumál


Charles fékk líka snemma áhuga á rokki, blús og þjóðlagatónlist. Hann byrjaði 14 ára í skólahljómsveit og spilaði á kassagítar.

„Síðan keypti ég rafmagnsgítar fyrir spariféð mitt í óleyfi foreldra minna, sem voru ekki kátir með þetta framtak mitt. Pabbi skammaði mig hressilega þegar upp um mig komst, en síðan hjálpaði hann mér að búa til gítarmagnara. Hann hjálpaði mér að smíða allskonar hljóðfæri, allt frá flautum upp í slagverkshljóðfæri af ýmsum gerðum. Ég á foreldrum mínum mikið að þakka. Þau studdu mig í tónlistarnáminu frá byrjun og þar til ég lauk háskólanámi.“

Hljóðfærin sem Charles hefur spilað á í gegnum tíðina eru mörg. „Eins og flestir vita þá er tónlistarnemendum ráðlagt að einbeita sér að einu hljóðfæri ef þeir ætla að verða virkilega góðir og ná langt. En á móti kemur, að það að geta leikið á mörg hljóðfæri gefur þér meiri innsýn í heim annarra. Að læra á nýtt hljóðfæri er eins og að læra nýtt tungumál, þú öðlast víðari skilning á því sem er að gerast í kringum þig,“ segir Charles.

Náttúrubarn og unnandi


Charles hefur búið á Eiðum síðan hann flutti upp á Hérað 1992. Eiginkona hans, Suncana Slamning, er frá Króatíu og er einnig tónlistarkennari. Hún kennir við tónlistarskólana í Fellabæ og á Reyðarfirði. Þau kynntust í tónlistarskólanum á Reyðarfirði nokkrum árum eftir að Charles flutti til Íslands.

Suncana er ekki síður öflug í tónlistarlífinu á Austurlandi og hefur um árabil haldið saman og stjórnað kórnum Vesele Baba, sem flytur aðallega austur evrópsk sönglög. Saman eiga þau dótturina Hrafnsunnu, en fyrir átti Charles einn son, Ivor, og Suncana átti fyrir þau Pál Ivan og Margréti. Hrafnsunna og Páll Ivan eru bæði í myndlist og tónlist.

„Ég er náttúrubarn og náttúruunnandi,“ segir Charles. „Mér líður best úti í náttúrunni og kann best við mig í sveitinni, þess vegna fannst okkur Eiðar vera ákjósanlegur staður að búa á. Við leigjum líka Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði og förum þangað þegar okkur langar að komast lengra út í sveit. Jörðin er talsvert langt fyrir utan þorpið, 9 kílómetra. Það er afskaplega gott að vera við sjóinn annað slagið og anda að sér fersku sjávarloftinu.

Ég hef líka notað sumarleyfin til skipta um umhverfi og breyta til frá tónlistarkennslunni. Meðal annars hef ég unnið við skógrækt, í Loðnuvinnslunni, í fiskeldi, og einnig við þrif í skólum og stofnunum.

Ég vann líka við skúringar þegar ég var að læra í Suður-Englandi, en þegar ég fékk kennarastöðu þá mátti ég ekki skúra lengur. Það þótti ekki við hæfi. Það var því alveg nýtt fyrir mér að sjá konu bæjarstjórans vera að ryksuga og skúra í grunnskólanum á Egilsstöðum. Mér fannst það mjög jákvætt.“

Alltaf verið frjálslegur í kennslunni


Charles hefur komið víða við á tónlistarferlinum, meðal annars fengið sérstök verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2013 fyrir Lævirkjann, plötu sem hann og Halldór Warén gerðu með rússnesku söngkonunni Kjuregej. Í kjölfarið fylgdi síðan meðal annars tónleikaferðir á heimaslóðum söngkonunnar.

Charles segir samt að það sem gefi honum mest sé tónlistarkennslan. „Ég hef mjög gaman af að kenna börnum og það gefur mér mjög mikið ef ég skynja að ég hef vakið áhuga þeirra. Það besta af öllu er þegar uppkomið fólk kemur til mín og þakkar mér fyrir að hafa vakið áhuga þess á tónlist og viðhorfi þess til tónlistar almennt. Þá er ég ánægður.“

Charles er hættur að vinna sem eiginlegur tónlistarkennari en rekur sinn eigin tónlistarskóla sem hann kallar Tónskrattann samhliða því sem hann vinnur í íþróttamiðstöðinni á Egilstöðum.

„Ég hef alltaf verið frjálslegur í minni kennslu. Ef við eigum að taka samlíkingu, þá er ég ekki Suzuki kennari, ég er meira Harley Davidson týpan. Það sem skiptir mestu máli að mínu mati er hvort manni tekst að vekja áhugann hjá krökkunum.

Í seinni tíð fannst mér skólinn vera farinn að þrengja of mikið að mér, ég mátti ekki lengur fara út fyrir boxið í þeim mæli sem ég vildi. En ég er mjög ánægður með skiptin. Mér líkar afskaplega vel í sundlauginni, þar vinn ég með frábæru fólki, hitti marga og þegar veðrið er gott fer ég stundum út og spila á hljóðfæri fyrir sundlaugargestina.

Í janúar síðastliðnum stofnaði ég eigin tónskóla, Tónskrattann. Þar mun ég leggja áherslu á heimstónlist og samspil, mest á slagverk og óhefðbundin hljóðfæri, sem ég hef annaðhvort smíðað eða fundið á fjarlægum slóðum,“ segir Charles.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.