„Ég er viss um að veðurguðirnir eru franskir"

„Í ár verðum við í fyrsta skipti í langan tíma með dagskrá á sunnudeginum, helgistund í kirkjunni, fjölskyldustund á Búðartúninu og félagsvist seinnipartinn,“ segir María Óskarsdóttir, formaður undirbúningsnefndar Franskra daga á Fáskrúðsfirði sem settir verða á fimmtudaginn.

 


Er þetta 23 árið í röð sem Franskir dagar eru haldnir á Fáskrúðsfirði og hefur María leitt undirbúningsvinnuna nánast frá upphafi. „Þetta byrjaði með því að tvær nefndir á vegum bæjarfélagsins tóku sig saman árið 1996 og störtuðu hátíðinni. Ég var í annarri þeirra og síðan þá má segja að ég hafi ýtt þessu svolítið áfram, en þó alltaf með undirbúningsnefndum sem eru breytilegar ár frá ári,“ segir María.

Brottfluttir flykkjast heim
María segir hátíðina að sjálfsögðu hafa bæði stækkað og þróast frá upphafi en hún hafi þó alltaf verið bundin saman með föstum punktum á borð við kenderíisgönguna á fimmtudeginum, brekkusönginn á föstudeginum og tónleika/dansleiki bæði kvöldin. Hún segir brottflutta Fáskrúðsfirðinga gjarnan miða við að koma heim þessa helgi. „Það er þó alltaf erfitt að segja til um fjölda gesta í bænum því við rukkum ekki inn á neitt nema tónleika og dansleiki, en við höfum verið að miða við um 2000 manns að meðaltali.“

„Gaman að geta gert eitthvað gott fyrir aðra og samfélagið“
Hvað er það sem heldur Maríu að undirbúningi ár eftir ár sem allur er unninn í sjálfboðavinnu? „Ég held það sé aðallega þrjóska, já það má segja að það sé komið á það stig. Þetta er bara eins og barnið manns, það er svolítið erfitt að sleppa því að heiman, nema maður þá því vissari að það sé í öruggum höndum. En, það er gaman að geta gert eitthvað gott fyrir aðra og samfélagið, í það minnsta vona ég að það sé útkoman úr þessu öllu saman.“

Hafa verið sérstaklega heppin með veður
Hvernig er veðurspáin fyrir helgina? „Það er nú verið að spá einhverri rigningu á fimmtudaginn, en við erum að vona að spáin standist ekki frekar en venjulega. Það var nú bara í fyrsta skipti í fyrra sem við fengum rigningardembu meðan á hátíðardagskránni stóð á laugardeginum. Ég er viss um að veðurguðnirnir eru  franskir, við höfum allaf verið alveg sérstaklega heppin með veður.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar