„Ég gæti ekki verið ánægðari“

„Þetta gekk bara æðislega vel allt saman, það er mikil gleði og hamingja hér á bæ eftir hátíðina. Bæði bæjarbúar og þeir sem tóku þátt tala um hversu vel allt gekk þannig að við sem að þessu stöndum erum mjög hamingjusöm,“ segir Sesselja Hlín Jónasardóttir, ein þeirra sem stýrir LungA – listahátíð ungs fólks á Austurlandi sem lauk um helgina.



Sesselja telur að um 1500 gestir í tengslum við LungA hafi verið á Seyðisfirði um helgina. Eins og greint var frá á Austurfrétt fyrir helgi var breytt út af vananum á LungA í ár og boðið upp á tvö tónleikakvöld í stað eins.

„Við verjum alltaf tveimur vikum í að gera tónleikasvæðið fínt og fallegt og þess vegna kviknaði hugmyndin um að hafa tónleikakvöldin tvö, til þess að geta nýtt það í meira en nokkra klukkutíma. Bæði kvöldin voru alveg frábær, sem og öll hátíðin. Það var æðislegt veður allan tímann en það byrjaði að rigna um leið og síðasta lagið var búið seinna kvöldið og fólk var að fara af svæðinu, þannig að við hefðum ekki getað verið heppnari með veður.“

Sesselja Hlín segir vissulega nokkra ölvun hafa verið á svæðinu en ekkert alvarlegt hafi komið uppá. Er þetta form sem reynt var í ár það sem koma skal á LungA? „Það hefur hreinlega ekki verið rætt, við erum bara aðeins að anda og ætlum að sjá til. Við erum í það minnsta öll sérstaklega ánægð með þetta í ár en það á eftir að taka stöðufund um framhaldið.“

Er eitthvað eitt sem stendur uppúr eftir hátíðina að mati Sesselju Hlínar? „Nei, bara öll dagskráin eins og hún leggur sig. Allar sýningarnar í vikunni vor alveg æðislegar, fjölbreytnin og tónleikarnir, ég gæti ekki verið ánægðari.“

Ljósmyndir: Hrefna Björg Gylfadóttir. 

LungA2018 2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar