„Ég vil bara að hún fái að vera hún sjálf og líði vel“

Anna Sigrún Jóhönnudóttir á Reyðarfirði er móðir átta ára gamals barns sem skilgreinir sig sem stúlku. Anna Sigrún segir kynið ekki skipta sig máli heldur að barninu líði vel og líðanin hafi sannarlega breyst þegar barnið kom út úr skápnum.

Eins og svo margir aðrir ætluðu Anna Sigrún og maður hennar, Gunnar Lárus Karlsson, aðeins að flytja austur í stuttan tíma. Þau voru meira að segja hálfflutt bókstaflega, Anna Sigrún var komin suður í nýja vinnu og Gunnar að klára uppsagnafrest. Þau snéru við þegar þau áttuðu sig á að þau voru hvort í sínu lagi farin að skoða fasteignaauglýsingar á Reyðarfirði frekar en í Reykjavík.

Á sama tíma höfðu þau ákveðið að ættleiða og tóku að sér tvíbura frá Tékklandi. „Þegar maðurinn minn áttaði sig á þessum möguleika fannst honum sniðugt að ættleiða tvö í einu. Að ættleiða eitt barn þykir krefjandi og ég sagði við hann að hann vissi greinilega ekki hvað hann væri að fara út í. Hann náði samt að tala mig inn á þetta.

Það þykir jákvætt að systkini geti farið á sama heimilið og þannig er það í Tékklandi þaðan sem þær eru ættleiddar. Við fengum tvíbura. Það var óvænt en það er reynt að para saman hvað hentaði best. Ég hef einu sinni síðan sagt við hann að þetta hafi verið hans hugmynd. Eftir að þær voru komnar þá hefðum við aldrei viljað hafa þetta öðruvísi,“ segir Anna Sigrún.

Ættleiðingarferlið gekk vel fyrir sig og Anna Sigrún og Gunnar kom til Reyðarfjarðar með börnin, þá rúmlega 20 mánaða, árið 2017. Tvíburunum gekk vel að aðlagast nýjum heimkynnum, meðal annars íslenskunni.

Sagðist vera stelpa ekki strákur


Anna Sigrún og Gunnar töldus sig vera að koma heim frá Tékklandi með strák og stelpu. Merkilega fljótt fór strákurinn að tala um að hann kynni ekki við sig sem slíkur. Á síðasta ári leikskólans, á sjötta aldursári, tilkynnti hann það svo öllum að hann væri stelpa.

„Hún hafði sagt okkur að hún væri ekki strákur heldur stelpa. Það mátti ekki klippa hárið á henni og hún vildi vera í kjólum. Við gerðum ekki mikið með það, kjólar eru litríkir og börn eru hrifin af sterkum litum. Stundum vildi hún ræða þetta, stundum ekki. Þegar hún var fjögurra ára bað hún systur sína að fara til okkar og segja okkur að hún væri stelpa. Okkur fannst það bara í góðu lagi og sögðum að hún þyrfti ekkert að ákveða það strax.

Síðan gerðist ekkert meira nema hún hélt áfram að segja okkur að hún væri stelpa og spurði hvort hún gæti verið stelpa. Ég svaraði að ef hún segðist vera stelpa og liði þannig þá gæti hún verið það.

Við gerðum ekki mikið með þetta en horfðum svo á íslenska þætti á Stöð 2 um trans börn. Eftir þá ákváðum við að fá fræðslu um næstu skref og höfðum samband við Samtökin 78. Okkur var strax boðið myndsamtal. Samtökin hafa veitt góðan stuðning þegar á hefur þurft að halda. Þau eru með hópa á Facebook fyrir aðstandendur og fundi og viðburði fyrir börnin og aðstandendur.

Síðan eigum við ótrúlegt augnablik. Við erum að lesa „Vertu þú!“ barnabók sem inniheldur dæmisögur um ýmsa minnihlutahópa. Við vorum búnar að lesa nokkrar sögur þegar kom að sögu um trans stelpu. Meðan við lesum sé ég hvernig svipurinn breytist á minni stelpu þar til hún stoppar mig og spyr hvort þetta sé saga um sig.

Ég útskýri að þetta sé sönn saga um aðra stelpu annars staðar á landinu en spyr hvort henni líði svona. Hún játar því og spyr hvort hún megi vera svona. Hvort hún megi láta alla vita að hún sé stelpa, ekki bara vera stelpa heima og þykjast vera strákur annars staðar og skipta um nafn. Ég játaði því.“

Góður stuðningur úr skólunum


Þetta var um helgi. Í kjölfarið var gengið í að tilkynna ákvörðunina, fyrst öðrum innan fjölskyldunnar, síðan til leikskólans og foreldra þar. „Það var ekkert mál. Ég held að þetta hafi ekki komið neinum vina hennar þar á óvart. Í tölvupóstinum sem ég sendi öðrum foreldrum skrifaði ég að þetta væri staðan og hún kæmi sennilega ekki á óvart. Á mánudeginum höfðu greinilega flestir foreldranna talað við sín börn.“

Anna Sigrún segir að almennt hafi skólarnir á Reyðarfirði tekið vel utan um þessar aðstæður. „Leikskólinn tók okkur vel. Starfsfólkið á deildinni sýndi mikla fagmennsku og stuðning þótt stundum væri smá tregða að koma ákveðnum hlutum í gegn. Grunnskólinn hefur síðan verið frábær. Þess vegna hefur það ekki skipt okkur máli þótt við búum úti á landi og getum ekki sótt í allt sem Samtökin 78 bjóða.“

Hún bætir við að samfélagið á Reyðarfirði hafi líka tekið þeim vel. „Það eru mjög fá dæmi um einhverja fordóma. Einhverjir krakkar hafa sagt eitthvað tiltölulega saklaust, verið frekar forvitni en stríðni.“

Getur ekki leitt athugasemdirnar hjá sér


En þótt fjölskyldan hafi til þessa ekki fengið fordóma í garð trans fólks beint í andlitið þá eru þeir víða, til dæmis í skrifum á samfélagsmiðlum. Anna Sigrún segir það að verða foreldri trans barns gera það að verkum að viðbragðið gagnvart slíkum skrifum verður harðara.

„Ég get ekki leitt athugasemdirnar hjá mér, mér finnst þetta rugl vera orðið áberandi. Fólk sem kvartar undan því að gangstéttir séu málaðar í regnbogalitum skilur ekki að það er ástæðan fyrir að það þarf að mála. Við sjáum þetta í kommentakerfunum en fólk sem tilheyrir hinsegin samfélaginu heyrir þetta úti á götu, verður jafnvel fyrir ofbeldi.

Við sjáum að þegar hópur sem hefur verið lægra settur í þjóðfélaginu fer að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum sínum þá óttast annar hópur að missa sín. Ég skil ekki að fólki sjái ekki að það er að meiða aðra með orðum sínum. Það er ekki bara að segja hluti eða viðra skoðanir, það er að meiða og veit það. Hinsegin fólk er ekki að meiða aðra með orðum eða ofbeldi, aðeins að biðja um að fá að vera eins og það er í raun. Það sem hinsegin fólk þarf að upplifa gerir mig leiða en líka brjálaða.“

Barnið mitt skipti bara um nafn


Bæði hér og erlendis hafa komið fram raddir sem gagnrýna kynfræðslu og fræðslu um málefni hinsegin fólks í skólum. Því hefur verið haldið fram að börnin séu of ung til að skilja fræðsluna og jafnvel að hún rugli börn sem eigi erfitt enn frekar. Anna Sigrún segir margt í þeirri gagnrýni ekki eiga nokkra stoð í veruleikanum.

„Það er enginn kominn í neitt óafturkræft á þessu stigi. Barnið mitt skipti bara um nafn. Sumir tala um hormónablokkera. Þeir hafa verið notaðir í tugi ára án þess að neitt sé sagt, til dæmis á börn sem fara of snemma á kynþroskaskeið. Það eru heldur ekki öll trans börn sem fara á þá.

Þeir eru aðeins notaðir ef ami er orðinn að, til dæmis trans stelpa sem er að byrja í mútum því þær eru ekki afturkræfar. Það er ekkert víst að mín stelpa vilji slíka blokkara, þeir yrðu alltaf í samvinnu við hana. Hún skammast sín hvorki fyrir líkama sinn né annað og vonandi verður það þannig sem lengst.

Það er ekki verið að troða neinu upp á fólk, það óskar enginn neinum að þurfa að ganga í gegnum það sem trans fólk þarf að þola. Sjálfsvígstíðni er ekki hærri í neinum öðrum hópi, fyrir utan að fólk er jafnvel myrt fyrir það eitt að vera trans.“

Þarf að sýna stuðning í orðum og verki


Anna Sigrún segir að við þessar kringumstæður skipti máli að fólk sem styðji málstað hinsegin fólks sýni stuðning sinn virkilega í verki. Innan hinsegin samfélagsins er talað um „bandamanneskjur“ eða „ally-a.“

„Eins og staðan er núna er ekki nóg að setja regnbogaramma á Facebook, það verður að taka slaginn. Með því meina ég að ef einhver segir eitthvað á kaffistofunni þá megi ekki leiða það hjá sér heldur segja að þessi orð séu ekki í lagi. Ég skil ekki af hverju einhver er brjálaður því annar einstaklingur sem hann þekkir ekki vill fá að vera hann sjálfur.

Einu sinni hefði ég bókstaflega tekið slaginn en ég hef þroskast. Það skilar mestu að ræða málin, þótt ég sé brjáluð inni í mér. Ég leyfi fólki að segja sitt en bendi svo á að svona séu hlutirnir ekki. Til dæmis að tíu ára börn séu hvergi send í skurðaðgerðir. Fólk les slíkar rangfærslur sem þessar og trúir þeim ef enginn segir neitt hávært gegn þeim.“

Getur skipt til baka en ólíklegt að svo verði


Eins og Anna Sigrún bendir á þá hefur engin ákvörðun verið tekin sem ekki er hægt að endurskoða. Henni þykir þó ekki líklegt að dóttirin skipti aftur um skoðun.

„Við og allt fólkið okkar sáum breytinguna sem varð á henni þegar hún fékk að vera hún sjálf. Það var eins og eitthvað róaðist inni í henni. Hún var ekki lengur í baráttu við að sanna sig. Nokkrum dögum eftir að hún var búin að segja öllum vinum sínum á leikskólanum að hún væri stelpa og nýja nafnið sitt þá bað hún mig um að klippa sig upp að öxlum. Núna vissu allir að hún væri stelpa og hún þyrfti ekki að sanna það. Þegar ég sá þessa breytingu þá var ekki lengur spurning um mína afstöðu. Hvaða máli skipti kynið mig hvort sem er. Ég vissi ekkert hvort ég fengi stelpu eða strák þegar ég ættleiddi.

Börnin geta alltaf farið til baka. Fyrst hún gat skipt um nafn einu sinni þá getur hún það aftur þótt ég reikni ekki með að hún geri það. Hún tók nokkra daga tímabil þar sem hún bað okkur að prófa að nota aftur gamla nafnið sitt og strákafornöfn. Á þriðja degi bað hún okkur að hætta því.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.