„Ég vil hafa mikið kjöt“

Ingrid Karis opnaði nýverið veitingastaðinn Studio 23 á Seyðisfirði. Þar býður hún upp á hnausþykka hamborgara, enda er henni mikið í mun að matargestir fari ekki svangir út. Undanfarið ár hefur verið viðburðaríkt því Ingrid var ein þeirra sem misstu hús sitt í stóru skriðunni fyrir ári.

„Það er magnað hvernig þetta hefur þróast undanfarið ár,“ segir Ingrid sem bjó í Berlín, einu húsanna sem fór í skriðunni. Ingrid fór úr húsinu skömmu áður en skriðan féll. Hún hefur síðar lýst því að húsið hennar „hafi lent í blandaranum.“

Byrjaði með vöffluvagn

Í byrjun sumars hóf hún rekstur vöffluvagns á Egilsstöðum. „Ég var búinn að vera lengi með hugmynd um matarvagn en vissi ekki hvað ég ætti að hafa í honum. Það voru nokkrar hugmyndir sem gengu illa upp þar til ég snéri mér að vöfflunum.

Það elska allir vöfflur. Ég gerði síðan mína útgáfu af þeim, hugsaði til íslensku ísbúðarinnar og hvernig Íslendingar fá sér bragðaref með ýmsu nammi. Ég yfirfærði það á vöfflurnar. Þetta varð strax afar vinsælt.

Ég var með hugmynd um vöffluhús. Ég stefndi þó að því að vera með vagninn í dálítinn tíma til að safna mér peningum til að stækka síðar.“

Tækifæri býðst

„Þegar ég var búin að vera með vagninn í um mánuð frétti ég að húsið hér að Austurvegi 23 sé til sölu og ég ákvað að slá til. Fyrst ætlaði ég að gefa mér tíma til að taka húsið í gegn og opna næsta vor, en ég þurfti að borga reikningana og lánið.

Úr varð að ég fékk tvo vini mína til að taka húsið í gegn. Við hentum öllu út úr því, máluðum og slíkt. Við fengum lyklana afhenta í lok júní, eftir það unnum við nánast stanslaust í tvær vikur og opnuðum um miðjan júlí.

Fyrst vorum við bara með pylsur, gos, grillaðar samlokur og smá nytjamarkað. En markaðurinn dugði heldur ekki til að borga reikningana þannig ég fór að huga að næsta skrefi. Ég vissi að ég þyrfti að hafa mat, þannig við bættum við húsgögnum, tækjum og slíku,“ segir Ingrid.

Stærðin skiptir máli

Studio 23 opnaði síðan þann 20. nóvember síðastliðinn. Staðurinn fellur í flokk grillhúsa en aðaláherslan er á hamborgarana. „Þegar við vorum komin af stað í undirbúninginn á þessu þá datt sá sem er kokkurinn óvart upp í hendurnar á mér. Þetta hefur allt verið þannig.

Mottóið okkar er að stærðin skipti máli. Hamborgararnir okkar eru að staðaldri 200 grömm, þótt hægt sé að fá minni. Ég vil hafa mikið kjöt. Þegar ég fer út að borða finnst mér leiðinlegt að borga mest fyrir brauð en ekkert kjöt. Helst vil ég geta sleppt öðru brauðinu og frönskunum en samt orðið södd. Við kokkurinn vorum sammála um þetta og til þessa hafa viðskiptavinir okkar verið ánægðir. Fólk hefur jafnvel gert sér ferð frá Egilsstöðum til að borða hjá okkur. Við viljum líka hafa matinn ferskan og því gerum við allt frá grunni, hamborgarana og sósurnar.“

Stúdíóið

Ingrid, sem er fædd í Eistlandi, hefur búið á Seyðisfirði í um tvö ár. Hún er lærður tískuljósmyndari og þangað sækir hún innblásturinn að nafninu. „Fyrst hugsaði ég um gallerí, því mig langaði að fá listamenn hingað með sýningar og sölu, en mér fannst ekki nógu mikill neisti í því.

Þá fór ég og fletti upp skilgreiningunni á orðinu „studio“. Það getur verið nánast hvað sem er, eldhús, aðstaða listamanns eða bílskúr og mér fannst það passa vel.“

Og þótt grillstaðurinn sé í forgangi núna er hugmyndin um vöfflurnar ekki horfin af sjónarsviðinu. „Það var ekki pláss fyrir þær hér inni með matnum, en ég stefni á að hafa vöfflur og ís í innenda hússins næsta sumar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.