Einhver átakanlegasta saga Austurlands senn á prent

„Ég er búinn að vita af þessu um tíu ára skeið og það kitlaði alltaf að skrifa um þetta og svo loks fyrir þremur árum síðan þá hófst ég handa,“ segir Ásgeir Hvítaskáld.

Ný söguleg skáldsaga eftir Ásgeir um hörmulega atburði hér austanlands sem áttu sér stað árið 1784 kemur út innan tíðar en verið er að vinna að lokafrágangi fyrir prentun.

Bókin heitir Morðið á Naphorni og tekur á sannsögulegum atburðum þegar þrír ungir drengir struku úr vistarböndum en draumur þeirra um frelsi snérist fljótt upp í andhverfu sína sem endaði með svikum og morði. Morðinginn sjálfur var svo dæmdur til dauða og tekinn af lífi með hrottalegum hætti. Það reyndist síðasta aftakan á Austurlandi.

„Þetta er einhver óhugnarlegasta saga sem ég veit um af Austurlandi,“ segir Ásgeir. „Það er töluvert mikið af efni og heimildum til um málið og meira að segja skjöl um þetta til í geymslum danskra dómstóla. Töluvert var komið inn á þetta mál líka í bókaflokknum Eskju sem ég held að heiti þannig að efnisleitin var ekki erfið.“

Ásgeir hefur um tíma óskað eftir framlögum á vefnum Karolina Fund til að prenta bókina og segir það hafa gengið vel. Áhugasamir geta enn styrkt útgáfuna og fengið áritaða bók eða bækur að launum.

„Ég er mjög sáttur með það. Það hafa borist framlög frá fjölda fólks og meira að segja utan úr heimi. Það er jákvætt því þó eldri Austfirðingar hafi ábyggilega vitneskju um þessa voðaatburði þá er ekki víst að yngra fólkið geri sér grein fyrir þessari grimmilegu fortíð sem ekki má gleymast.“

Naphornsklettarnir, milli Berufjarðar og Breiðdalsvíkur, þar sem drengirnir þrír bjuggu um sig í klettaskúta frelsinu fegnir á sínum tíma. Það snérist fljótlega upp i martröð. Skútinn sem drengirnir dvöldu í segir Ásgeir hafa fallið niður að stórum hluta og sé því óaðgengilegur að mestu. Mynd Ásgeir Hvítaskáld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.