Einn af frumkvöðlunum í nútímaljóðagerð á Íslandi

Dagskrá verður flutt á Eskifirði á laugardag í tilefni þess að Einar Bragi Sigurðsson, skáld, hefði í fyrra orðið 100 ára. Ljóðaunnandi segir Einar Braga hafa unnið mikið brautryðjendastarf og markað djúp spor á íslenska bókmenntasögu.

„Hann var einn af frumkvöðlunum að nútímaljóðagerð á Íslandi, var í hópi svokallaðra atómskálda sem byltu formi ljóða á Íslandi,“ segir Magnús Stefánsson, formaður Félags ljóðaunnenda á Austurlandi.

Félagið stendur í samvinnu við Menningarstofu Fjarðabyggðar og Bókaútgáfuna Dimmu fyrir dagskrá í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði þar sem farið verður yfir feril Einars Braga.

Hann fæddist í Skálholti á Eskifirði í apríl árið 1921 og ólst þar upp. Hann nam síðan við Menntaskólann á Akureyri áður en hann hélt til Svíþjóðar þar sem hann nam bókmenntir, listasögu og leikhússögu. Eftir heimkomu stofnaði hann meðal annars tímaritið Birting sem gegndi lykilhlutverki við innleiðingu módernisma í íslenska listsköpun.

„Hann gaf út fyrstu ljóðabókina sína árið 1950 meðan hann bjó enn í Svíþjóð. Ljóðin í henni voru hefðbundin. Hann hafði síðan mikil áhrif á íslenska bókmenntasögu, ekki síst með útgáfu Birtings. Hann stýrði því ásamt Jóni Óskari. Þeir gáfu saman út bókina „Erlend nútímaljóð“ sem var tímamótaverk,“ segir Magnús.

„Einar Bragi var mikilvirkur þýðandi. Hann snéri sér síðar að því að þýða ljóð sama, sendi frá sér sjö bækur með þeim sem voru stórmerki. Á efri árum þýddi hann heildarsafn leikverka Henriks Ibsens og Agust Strindbergs og gaf út sjálfur á tveimur bókum,“ segir Magnús um Einar Braga sem lést í Reykjavík árið 2005.

Einar Bragi var útnefndur heiðursborgari Eskifjarðar árið 1986 og skrifaði byggðasögu staðarins sem kallast Eskja. „Hann taldi sig alla tíð Eskfirðing og vann þrekvirki í þágu bæjarins með að skrifa þetta fimm binda verk. Við það fór hann nokkrar ferðir út til Björgvin í Noregi til að afla frumheimilda um verslunarsögu Eskifjarðar.“

Dagskráin hefst klukkan 14:00 á laugardag. Þar fjallar Sigurborg Hilmarsdóttir, systurdóttir Einars Braga, um Eskju og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, eigandi Dimmu, um ljóðagerð hans. Flutt verður tónlist og lesið úr verkum skáldsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.