Eins og að kremja hjartað að láta pressa bílinn

Þýsku hjónin Maria og Michael Zimmerer lögðu af stað sæl og glöð frá heimili sínu í nágrenni Ágsborgar snemma í júní. Eftir stuttan akstur á Íslandi fór bíllinn þeirra að láta ófriðlega. Hann var dreginn að verkstæði við Finnsstaði á Fljótsdalshéraði og stóð þar í hátt á sjöttu viku á meðan beðið var eftir nýrri vél.

Michael og Maria komu fyrst til landsins á bílnum fyrir sjö árum. Þau kunnu vel við landið en einkum fólkið og ákváðu því að koma aftur nú í sumar í tilefni af gullbrúðkaupi þeirra í desember.

Þau komu til Seyðisfjarðar með Norrænu 15. júní. Strax við bæjarmörkin fór húsbíll þeirra að hiksta en hjálpsamur vegfarandi hjálpaði þeim áfram. Hjónin tóku stefnuna norður í land og voru komin langleiðina að vegamótunum til Vopnafjarðar þegar bíllinn sendi frá sér reyk og lagði svo niður störf.

Michael og Maria segjast ekki hafa vitað hvað þau ætluðu að gera í fyrstu, en höfðu samband við ADAC, félag bifreiðaeigenda í Þýskalandi. Þar fengu þau mikla aðstoð og eftir nokkurra tíma bið kom hláturmildur vörubílstjóri sem tók bílinn upp á pall og þau með og skutlaði í Finnsstaði.

Ný vél á eBay


Við komuna þangað var vandamálið greint. Vélin var í raun ónýt. Vinur þeirra, sem rekur bifreiðaverkstæði í Augsburg, reyndi að hjálpa þeim. „Það kostaði okkur 2000 evrur (um 300.000 krónur) að fá varahlutina og þá sátum við samt eftir með gamla vél sem við vissum ekki ástandið á,“ segir Michael.

Þau voru í samskiptum við starfsmann ADAC, sem reyndist þeim mjög hjálplegur auk þess sem Svanur Hallbjörnsson og Vignir Elvar Vignisson frá bifreiðaverkstæðinu reyndu hvað þeir gátu að hjálpa. Ein dóttir þeirra var síðan milliliður í samskiptum þegar á þurfti að halda.

Nokkrir kostir voru í stöðunni. Að koma bílnum aftur til Þýskalands og fá hann verðmetinn af ADAC en það var snúið mál og mögulega var farartækið ekki mikils virði lengur í peningum. Tæknilega séð var trúlega ódýrast að henda bílnum en Micheal og Maria tóku fyrir það.

„Bíllinn er 30 gamall og orðinn hluti af fjölskyldunni. Hann á sér nafn, Bärle (Bangsi). Það hefði kramið hjarta mitt að setja bílinn í pressuna,“ segir Michael. „Dóttir okkar fór eBay og hálftíma síðar hringdi hún og sagði: Pabbi – ég fann vél!“

Þau hringdu í þann sem bauð vélina á uppboðsvefnum til að kanna betur hvað væri að baki auglýsingunni. „Hann sagði okkur að sumir söfnuðu frímerkjum í tómstundum sínum en hann vissi fátt skemmtilegra en að gera upp gamlar vélar,“ segir Michael.

Ferðalag vélarinnar


Við tók að sannreyna að betur ástand vélarinnar og að hún myndi passa. Þegar það var í höfn þurfti að koma vélinni til Íslands. Það reyndist snúin leið. Hún var fyrst send frá viðgerðarmanninum, sem býr rétt hjá Hamborg nyrst í Þýskalandi suður til München til skoðunar hjá ADAC. Þaðan aftur til Hamborgar til að fara í skip. Hún kom hins vegar of seint á föstudegi til að vera tollafgreidd fyrir helgi.

Þá var henni komið til Bremen og sett í fyrsta gáminn sem fór í flutningaskipið sem sigldi með hana til Íslands. Það þýddi að hún varð síðust út eftir komuna til Reykjavíkur og aftur kom helgi. Vélin kom austur um miðjan júlí og það var loks þriðjudaginn 18. júlí, rúmum mánuði eftir komuna, sem Zimmerer-hjónin gátu haldið í ferðalagið.

„Okkur hefur alveg langað heim en við komum til að skoða landið. Við áttum heldur ekki von á að vera svona lengi, vélin var alltaf á leiðinni,“ segir Maria.

Einstakar móttökur eystra


En vandræðin voru ekki að baki þótt þau kæmust af stað. Bíllinn fann upp á nýjum hrekkjum og leitaði í síðustu viku aftur í Finnsstaði. Michael og Maria eiga svo far með Norrænu aftur til baka í fyrramálið og eru ferðbúin á Seyðisfirði.

Hjónin segjast svo gott sem orðlaus yfir gestrisninni sem þau hafa notið á Austurlandi, sérstaklega þó Finnsstöðum. Bíllinn hafi strax verið tengdur við vatn og rafmagn fyrir utan að fá að standa þar í fimm vikur, án endurgjalds. Þá lýsa þau ánægju með þjónustu í verslunum, heilsugæslu og annars staðar sem þau hafa komið síðustu vikurnar.

Þau leigðu sér bíl til að fara í styttri ferðir en hafa á milli þess spilað lúdó og fylgst með mannlífinu á Finnsstöðum þar sem alls konar tæki koma til viðgerða.

„Við höfum haft það svo gott hérna á bílastæðinu að við erum nánast farin að kvíða því að þurfa að fara aftur. Fólkið hér er orðið eins og fjölskylda okkar,“ segja þau og ítreka heimboð til Svans og hans fólks þar sem skoðunarferð um Bæjaraland sé innifalin.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.