Ekki bara fyrir gítarnörda

„Ég var nú bara að labba í vinnunna og fór aðeins lengri leið en venjulega og fékk á meðan þessa hugmynd, um hvort það væri ekki sniðugt að fara af stað með svona sjónvarpsþætti," segir gítarleikarinn Jón Hilmar Kárason, en sjónvarpsþátturinn Baksviðs hefur göngu sína á N4 í kvöld.


Auk Jóns Hilmars stendur Guðjón Birgir Jóhannsson, eigandi Hljóðkerfaleigu Austurlands að þættinum, sem er helgaður tónlist. Eins og nafnið gefur til kynna þá fá áhorfendur að skyggnast baksviðs og kynnast öðrum hliðum tónlistarinnar en er venjulega í fjölmiðlum. Þessi fyrsta sería verður helguð gítarnum og verður á dagskrá annan hvern mánudag klukkan 19:30.


N4 leist ekki á hugmyndina í upphafi

Eftir að hugmyndin kom til Jóns Hilmars á göngunni hringdi hann strax í N4. "Ég sagði þeim hvað ég var að hugsa og skemmst er frá því að segja að þau tóku bara mjög illa í hugmyndina, leist ekkert á hana,“ segir Jón Hilmar og hlær.

Jón Hilmar var hinsvegar alveg sannfærður um að hann væri með eitthvað í höndunum og skrifaði tölvupóst á sjónvarpsstjórana eftir að samtalinu lauk þar sem hann útskýrði frekar hvað hann sæi fyrir sér. „Þær urðu aðeins áhugasamari en urðu ekki sannfærðar fyrr en við sendum þeim fyrsta þáttinn fullbúinn,“ segir Jón Hilmar, en Guðjón Birgir sér um alla myndatöku og tæknivinnslu.


„Sjáum hlutina í öðru ljósi“

Jón Hilmar segir að þættirnir séu fyrir alla. „Já, við leggjum upp með að hafa þetta ekki gítarnördaþátt. Það er bara svo margt við gítarinn sem er áhugavert að skoða og okkur langar að koma áleiðis til sem flestra, eins og til dæmis hvað sjálfstraust er mikilvægt fyrir gítarleikarann. Við kíkjum á græjur og ýmsar hliðar á lífi tónlistarmannsins. Förum baksviðs á sýninguna Mamma mía og sjáum hlutina í öðru ljósi. Í fyrsta þætti verðum við með viðtal við einn áhugaverðasta gítarleikara heims, Robben Ford, en hann var hér á landi í tengslum við Reykjavik Guitarrama á síðasta ári og er einn af stóru nöfnum gítarsögunnar.“


Lærdómsríkt ferli

Jón Hilmar segir ferlið við gerð þáttanna hafa verið bæði lærdómsríkt og skemmtilegt. „Þetta var að mörgu leyti allt öðruvísi en ég bjóst við og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Strax eftir fyrsta viðtalið var ég búinn að læra ótrúlega margt og átta mig á hlutum sem hægt væri að bæta. Þetta er mjög skemmtilegt og eitt stórt lærdómsferli.“

Sex þættir verða í seríunni. „Við erum opnir fyrir því að gera fleiri þætti en nafnið gefur möguleika á því að skoða hvaða hljóðfæri sem er eða tegund tónlistar. Ef hann hefði heitið „gítarþátturinn“ þá hefði hann verið bundinn við það eina hljóðfæri.

Kynningarmyndband fyrir þættina má sjá hér að neðan; 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar