Elfar Aðalsteins hlýtur lof fyrir stuttmynd: Stoltur af Eskjuárunum
Elfar Aðalsteinsson, fyrrverandi forstjóri Eskju, kann vel við sig í Lundúnum þar sem hann spreytir sig á kvikmyndagerð. Nýjasta stuttmynd hans hefur fengið lofsamlega dóma. Aðalpersóna hennar byggir á fósturföður Elfars, Aðalsteini Jónssyni.
„Myndin er tileinkuð honum sem heildstætt verk. Það eru margar persónulegar tilvitnanir í hann en ég læt fólki eftir að finna sína eigin túlkanir. Það er best þannig“ segir Elfar í samtali við vikublaðið Austurgluggann.
Þar ræðir Elfar um stuttmyndina Sailcloth sem hlotið hefur mikla athygli. Hún hlaut aðalverðlaunin á Rhode Island kvikmyndahátíðinni í sumar, sem tryggir henni sjálfkrafa sæti í forvali fyrir framlag stuttmynda til Óskarsverðlaunanna og fyrri skemmstu fékk hún International Cinema Achievement verðlaunin í Grikklandi.
Í Sailcloth er sagt frá eldri herramanni sem strýkur af elliheimili. Hann tekur stefnuna á bryggjuna þar sem gamall félagi býður hans, tilbúinn í þeirra seinustu för.
Aðalhlutverkið er í höndum John Hurt, þekkts bresks leikara sem árið 1980 fékk Óskarsverðlaunin fyrir túlkun sína á Fílamanninum. Hann er þekktur fyrir frábæra rödd en athyglisvert við myndina er að hún er án tals.
Elfar segir að Hurt hafi tekið vel í myndina eftir að Elfar, sem leikstýrir og samdi handritið, sendi það til Hurts. „Umboðsmanninn hafði svo samband viku síðar og sagði að John vildi hitta mig í spjall. Hann er þekktur fyrir að taka að sér hlutverk sem honum finnst áhugaverð og sagði eftir spjallið „Elfar, let‘s go make a film“.
Elfar hefur undanfarin sex ár búið í Englandi efir að hann seldi hlut sinn í Eskju. „Ég er stoltur af þeirri uppbyggingu sem ég stóð fyrir á mínum rekstrarárum en eins og ég sagði var ráðning mín tímabundin og minn draumur var ekki að reka útgerðarfyrirtæki - þó svo að aðrir hefðu hugmyndir um að ég ætti að gera slíkt,“ segir Elfar í nýlegu viðtali í DV um Eskjuárin.
Þar segist hann þó fyrst og fremst vilja ræða það sem hann gerir í dag. Elfar var framleiðandi íslensku kvikmyndanna Mamma Gógó og Sveitabrúðkaups. Von er á nýrri stuttmynd frá Elfari á nýju ári . Sú ber heitið Subculture og er tökum á henni lokið. Þar segir frá Darryl og Lily sem af ólíkum ástæðum hafa flust í skuggahverfi Lundúnaborgar. Eftir erfiða nótt leita þau að leiðum út úr sívaxandi erfiðleikum.