Endurbætt Norræna komin af stað

Endurbótum er lokið á ferjunni Norrænu, sem siglir vikulega milli Seyðisfjarðar, Þórshafnar í Færeyjum og Hirthals í Danmörku. Hún er væntanleg til Seyðisfjarðar þriðjudaginn í næstu viku.

Norræna hefur verið í skipasmíðastöðinni í Munkebo í Danmörku síðan frá því fyrir jól, en hún kom í gærmorgunn til hafnar í Hirtshals að loknum endurbótunum.

Hún hefur áætlunarsiglingar þaðan á ný á laugardag, verður í heimahöfn í Færeyjum á mánudag áður en hún kemur til Seyðisfjarðar að morgni þriðjudags. Þar stoppar hún fram á miðvikudagskvöld.

Ferjan var upphaflega smíðuð árið 2003 en breytt árið 2009. Breytingarnar nú er hinar mestu frá því Norræna var smíðuð. Kostnaður við þær er yfir tveir milljarðar íslenskra króna.

Bætt hefur verið við 50 nýjum káetum. Hver þeirra rúmar 2-4 farþega. Af þeim eru 34 lúxuskáetur með stóru hjónarúmi. Tveimur káetum var bætt við á áttunda þilfari en þær eru rúmgóðar með góðu útsýni. Um borð í skipinu eru nú alls 370 káetur með rými fyrir 1482 farþega.

Þá hefur verið bætt við nýju veitingasvæði á tíunda þilfari með útsýni yfir hafið á siglingum ferjunnar. Ýmis önnur rými hafa fengið andlitslyftingu í takt við nútímann. Forsvarsmenn útgerðarinnar Smyril-Line hafa sagt að með breytingunum vonist þeir til þess að Norræna uppfylli væntingar ferðalanga um aukin þægindi á ferðum sínum.

Myndir af ferjunni eftir breytingarnar má sjá hér og hér af síðustu handtökunum við endurbæturnar.

Mynd: Smyril-Line

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.