Sýningarrýmið í Þórsmörk endurbætt fyrir sýningar sumarsins
Páll Ivan frá Eiðum er fyrsti listamaðurinn sem sýnir í endurbættu sýningarrými Þórsmerkur í Neskaupstað en myndlistarsýning hans opnaði þar á laugardag. Tónleikaröðin Tónaflug hóf einnig göngu sína þá en þessir viðburðir marka upphafið að sumarstarfi Menningarstofu Fjarðabyggðar.„Okkur hefur vantaði gallerrými síðan ég kom hingað. Við höfum verið að nýta alls konar hús og hýbýli til að koma upp sýningum listafólks, til dæmis Stríðsárasafnið á Reyðarfirði eða Gamla barnaskólann á Eskifirði.
Þetta hafa allt verið tímabundin rými en við höfum hvergi haft jafn greiðan aðgang og hér,“ segir Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar.
Menningarstofan hefur verið með Þórsmörk, Þiljuvelli 11, í Neskaupstað á leigu síðustu ár. Húsið á sér langa sögu en undanfarin 25 ár hefur það verið í eigu Listasmiðju Norðfjarðar en félagar hennar hafa byggt upp húsið og viðhaldið. Síðasta haust eignaðist hins vegar SÚN það.
Sýningarrýmið er á jarðhæð hússins og þar er nú búið að byggja upp vegg í miðjum salnum svo að hægt er að hafa fleiri verk upp til sýnis en áður. Hreinn J. Stephensen, starfsmaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, smíðaði vegginn sem er færanlegur þannig hægt er að taka hann út þegar þarf. Þá hefur lýsingin verið bætt þannig hún hentar betur fyrir málverkasýningar. Frekari endurbóta er þó þörf á salnum og eru fyrirhugaðar.
Sýningar og tónleikar í sumar
Sem fyrr segir er það Páll Ivan frá Eiðum sem á fyrstu listasýningu sumarsins. Hún opnaði á laugardag. Af öðrum sýningum á vegum Menningarstofu Fjarðabyggðar í sumar má nefna ljósmyndasýningu Grétu Sigurðardóttur frá Vaði í Skriðdal og lokasýningu skapandi sumarstarfa hjá Fjarðabyggð, sem kalla sig Eylist. Hópurinn hefur bækistöð sína í Þórsmörk.
Þá er búið að skipuleggja fimm listasmiðjur fyrir börn í 3. – 6. bekk sem ferðast milli byggðarlaga. Hreinn stýrði fyrstu smiðjunni á Eskifirði í síðustu viku. Í þessari viku leiðir Viktoría Blöndal, sem nýlega fékk tilnefningu til Grímuverðlaunanna fyrir leikstjórn, leiklistarsmiðju á Fáskrúðsfirði.
Þá hófst Tónaflug í Neskaupstað á laugardag með tónleikum Þóris Georgs og Axels Flóvents í Beituskúrnum. KK kemur í lok mánaðarins en í júlí er staðfest að Ragnhildur Gísladóttir mætir með hljómsveit og síðan koma Jón Ólafsson og Hildur Vala.