Engar stórar breytingar á gönguvikunni meðan hún virkar
Gönguvikan Á fætur í Fjarðabyggð hefst á morgun með þremur miserfiðum göngum um Barðsnes í Norðfirði. Veðrið er það sem skipuleggjendur hafa síst stjórn á en þeir eru vanir að spila úr þeim aðstæðum sem þeim eru gefnar.„Þetta eru 16 göngur og í sextánda skiptið sem við höldum gönguvikuna. Hún er hefðbundin, við erum treg til að umpóla því sem virkar.
Við förum þó alltaf í nýjar göngur. Laugardaginn eftir viku ætlum við út Víkurheiði og niður í sunnanverða Vöðlavík. Við höfum ekki farið þá leið áður í vikunni.
Upphaflega hugmyndin var að draga fólk austur fyrr á sumrin til að ganga. Við gerðum okkur grein fyrir að þetta væri góður tími til gönguferða en það kom enginn austur fyrr en í júlí.
Það hefur gengið eftir og nú markar vikan upphafið að göngutímabilinu. Flestir sem koma með okkur eru af svæðinu en svo er líka Breti sem hefur verið með okkur allar vikurnar nema sem fyrstu og svo fólk víðar af landinu, svo sem Vestmannaeyjum og Akureyri. Þetta er fólk sem slysaðist inn og getur ekki hugsað sér að sleppa þessu,“ segir Sævar Guðjónsson hjá Ferðaþjónustunni á Mjóeyri sem farið hefur fyrir gönguvikunni.
Fjalla- og göngugarpar
Hún teygir sig yfir átta daga, frá laugardegi til laugardags. Á morgun verður göngufólk ferjað úr Neskaupstað yfir á Barðsnes þar sem þrjár miserfiðar göngur eru í boði. Vikunni lýkur síðan með göngum um Vöðlavík. „Barðsnesið er algjör perla og svo er gaman að fara hringinn í Vöðlavíkinni. Þar verður líka styttri ganga út á Krossanes og fólkið úr þeim göngum gæti hist, að minnsta kosti sést, sem skapar skemmtilega stemmingu.“
Þess á milli verður gengið á fjöll á morgnana, léttari göngur fyrir fjölskylduna eftir vinnu og loks kvöldvökur. Fjöllin fimm í vikunni eru að þessu sinni Hólafjall, Goðaborg, Steðji, Kistufell og Goðatindur. Þeir sem klára fjöllin öll kallast Fjallagarpar Fjarðabyggðar. Alls hefur verið gengið á um 40 mismunandi fjöll í vikunni.
Seinni parts göngurnar verða út í Páskahelli, meðfram Eyrará í Fáskrúðfirði og Hellisá í Eskifirði, yfir Kollaleiruháls og upp á Sellátratind. Börn undir 12 ára aldri geta með þátttöku í þeim öllum fengið viðurnefnið Göngugarpar Fjarðabyggðar. Svipuð viðurkenning er nú í boði fyrir íbúa 67 ára og eldri. „Það myndaðist mikil stemming meðal eldri borgara fyrir seinni parts göngunum í fyrra og margir tóku barnabörnin með,“ segir Sævar.
Spilað úr því sem veðrið gefur
Heldur virðist vera að rætast úr veðurspá næstu viku og draga úr rigningu sem von var á fyrri hluta hennar. „Við ráðum ekki við hana. Í gegnum tíðina höfum við einu sinni þurft að hætta við vegna veðurs og einu sinni seinkað fjallgöngu vegna hvassviðris. Útivistarfatnaðurinn er gerður til að reyna á hann.
Það hefur allt sinn sjarma og maður spilar úr því sem maður hefur. Þokan getur ýkt upp það sem er nálægt þér. Eitt sinn vorum við á gangi um Sandvíkina í þoku og fólk talaði um hvað mosinn væri fallegur. Þegar við komum upp í Gerpisskarðið reif hana af. Við fórum úr 20-30 metra skyggni yfir að heimurinn opnaðist. Fólk sat lengi gagntekið í skarðinu.“
Að þessu sinni er óvenju snjólétt á svæðinu. „Það getur bæði verið þægilegt að ganga í mjúkum snjó en það er verra ef hann er harður. Það verður lítið um að fólk geti rennt sér niður fannir. Við hefðum mögulega getað komist á fjöll sem alla jafna eru ófær en það er erfitt að sjá fyrir í febrúar, þegar við skipuleggjum vikuna, hvernig snjóalög verða,“ segir Sævar.
Þótt hann fari fyrir vikunni eru fleiri með honum svo sem fararstjórarnir en þar fer fremstur Kristinn Þorsteinsson frá Ferðafélagi Fjarðamanna sem leiðir fjallgöngurnar. „Við hittumst eitt sinn á sjúkrahúsinu í Neskaupstað ekki löngu fyrir vikuna og fólk fór að hafa áhyggjur hvað yrði um hana. Við hristum þetta fljótlega af okkur og vikan gekk eðlilega.“
Til hliðar við göngurnar er síðan náttúruskóli fyrir börn í samvinnu við Náttúrustofu Austurlands og síðan kvöldvökurnar sem líkt og göngurnar ferðast milli svæða innan Fjarðabyggðar. Á þeim skemmtir hæfileikafólk úr þeim byggðum. „Þegar allt er talið hefur vel á annað þúsund manns tekið þátt í viðburðum vikunnar,“ segir Sævar að lokum.