„Erum eiginlega orðlaus“

Systkinin Eva Björk, Erna Rósa og Hannes Ívar Eyþórsbörn fara fyrir hópi hlaupara sem hlaupa til styrktar föður þeirra, Eyþóri Hannessyni, í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið. Eyþór, sem hefur vakið athygli fyrir að tína rusl samhliða því að fara út að hreyfa sig víða á Austurlandi, hefur barist við illvígt krabbamein síðustu tvö ár.

„Við erum eiginlega orðlaus því fólk hefur tekið ótrúlega vel í þetta. Við erum komin yfir milljónina. Við bjuggumst ekki við þessu en þetta kemur sér vel því baráttan er farin að taka meira og meira á.

Þetta hefur komið frá fólki að austan en líka alls staðar af landinu. Hann spilaði í danshljómsveitum í mörg ár og víða er fólk sem þekkir hann

Mér finnst þetta sýna hve mikið fólk hugsar til hans. Hann hefur verið mjög opinn með sín veikindi og aldrei leynt þeim. Það er gott að geta talað um þau,“ segir Eva Björk.

Röskur hópur

Systkinin þrjú hlupu í gærkvöldi 10 km leið frá heimili Evu Bjarkar í Hafnarfirði að Garðakirkju á Álftanesi og til baka. Þau höfðu upphaflega sett stefnuna á að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu en þurftu eins og svo margir að skoða aðra kosti eftir að hlaupinu af aflýst vegna samkomutakmarkana.

Með þeim í gær hlupu stjúpsystir þeirra, Sara Blandon og vinkona Evu, Adda Bjarnadóttir. Tveir aðrir hlauparar er í hópnum og hlaupa á næstu dögum. Jón Guðmundsson, fyrrum kennari á Hallormsstað, ætlar að hlaupa hálft maraþon og þá mun Guðbjörg Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Egilsstöðum, hlaupa eystra.

Tveggja ára barátta við flöguþekjukrabbamein

Eyþór er 65 ára gamall, uppalinn Borgfirðingur sem bjó síðar um tíma í Birkihlíð í Skriðdal og flutti síðar til Akureyrar og Reykjavíkur áður en hann kom aftur austur og settist að á Egilsstöðum. Þar starfaði hann sem ráðsmaður hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands þegar hann sumarið 2018 greindist með flöguþekjukrabbamein í kjálka. Síðan hefur hann farið í tvær erfiðar aðgerðir auk geisla- og lyfjameðferða. Samt sem áður hefur ekki tekist að drepa niður útgreiðslu meinsins.

Eyþór sjálfur hefur verið mikill hlaupagarpur og nýtt ferðir sínar til að tína rusl í leiðinni, eða plokka. Hann hefur bæði tínt meðfram þjóðvegum í nágrenni Egilsstaða, eða annars staðar þar sem hann hefur hlaupið svo sem í Noregi þar sem hann var í geislameðferð. Þá hefur hann tínt saman ómælt magn af rusli í nágrenni fyrirtækjalóða í nágrenninu á Fljótsdalshéraði. Hann hefur verði óþreytandi að vekja athygli á umgengni á svæðinu og fengið fyrir það viðurkenningar.

Gefur auka kraft að hlaupa fyrir góðan málstað

En þótt Eyþór hafi hlaupið mikið viðurkennir Eva að þau systkinin hafi gert minna að því. „Ég held að þetta hafi verið í sjötta eða sjöunda skiptið á ævinni sem ég fer út að skokka. Ég fór þrisvar í fyrra því við ætluðum að hlaupa þá en það datt upp fyrir. Við systur höfðum lengst hlaupið 8 kílómetra.

Hannes Ívar er bestur af okkur. Hann fór að hlaupa þegar hann var strandaglópur í Austurríki í þrjá mánuði í vor. Hann hvetur okkur áfram.

Þetta er gaman, ef maður finnur hraðann þá getur maður þetta alveg. Það er líka gaman að hlaupa fyrir svona góðan málstað, það gefur manni auka kraft. Pabbi er hlaupari og alltaf viljað að við hlypum líka, sem okkur þykir vænt um. Það var búið að fara út að plokka fyrir hann þannig það var rökrétt að hlaupið yrði næst.“

Hægt er að heita á hópinn á hlaupastyrkur.is út þriðjudaginn 25. ágúst.

Hópurinn að loknu hlaupi í gær, frá vinstri: Adda, Erna Rósa, Sara, Eva Björk og Hannes Ívar. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.