ESB málin í brennidepli
Á blaðamannafundi forsætisráðherra Norðurlandaþjóðanna, sem haldinn var á Egilsstöðum í morgun, sagði Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, að vissulega hefði það áhrif á umsóknarferli Íslendinga í Evrópusambandið hversu miklar undanþágur og sérákvæði væri farið fram á. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Íslendinga sagðist hafa fulla trú á að Alþingi samþykki stjórnartillögu um aðildarviðræður við ESB.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs taldi málefni fiskveiða gagnvart Evrópusambandsríkjunum ekki þurfa að vera áhyggjuefni fyrir Íslendinga, Norðmenn væru sjóaðir í slíku og það hefði gengið ágætlega. Hann sagði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafa unnið gott starf í efnahagsþrengingum íslensku þjóðarinnar og bauð fram ráðgjöf Norðmanna vegna umsóknar að Evrópusambandinu. ESB málin voru rædd vítt og breitt og virtist ríkja einhugur um að samstarfsvettvangur Norðurlandaþjóðanna væri áfram sterkur og mikilvægur hvað sem liði öðrum bandalagsmálum þjóðanna.
Fram kom að Norðurlönd mun öll styðja umsókn Íslendinga um aðildarviðræður við Evrópusambandinu.
Norrænu forsætisráðherranir hafa gengið frá kjörum á lánum Norðurlandanna til Íslands. Lánakjörin hafa ekki verið gefin upp en samþykki ríkisstjórnarinnar þarf að liggja fyrir. Norðurlöndin munu ekki hafa viljað veita lánin fyrr en lausn var fengin í Icesave-deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga.
Forsætisráðherrarnir eru nú ásamt fylgdarliði og fjölmiðlamönnum í skoðunarferð um Fljótsdalshérað og eru viðkomustaðir meðal annars lífræna býlið Vallanes og Stofnun Gunnars Gunnarssonar skálds að Skriðuklaustri. Þeir fara á brott um miðjan dag.
Mynd: Forsætisráðherrarnir í garði Gistihússins Egilsstöðum í morgun, þar sem þeir snæddu kvöldverð að hætti hússins í gærkvöld og gistu í nótt./GJ