Eskja harmar vinnubrögð sænska sjónvarpsins
Eskja hf. á Eskifirði hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem umfjöllun sænska ríkissjónvarpsins um mjölvinnslu fyrirtækisins í þættinum Uppdrag Granskning sem sýndur var 25. febrúar er hörmuð. Í þættinum var rætt við Hauk Björnsson, þáverandi framkvæmdastjóra Eskju og Hauk Jónsson verksmiðjustjóra. Fréttaauki Sjónvarps fjallaði um þátt sænska sjónvarpsins í gær.
Eskja sendi í kjölfar sýningar þáttarins yfirlýsingu til viðskiptavina þar sem m.a. kom fram að skipulagsbreytingar (framkvæmdastjóraskipti, innsk.blm.) séu nauðsynlegar til að takast á við þær alvarlegu aðstæður sem komu upp í kjölfar sænska sjónvarpsþáttarins og liður í að endurreisa traust á fyrirtækinu hjá viðskiptavinum.
Yfirlýsing frá Eskju hf. 23. mars 2009:
Í tilefni af sænska sjónvarsþættinum Uppdrag Granskning sem sýndur var í sænska ríkissjónvarpinu 25. febrúar síðastliðinn og fjallaði að miklu leyti um neyslu á laxi, laxeldi og fóðrun á eldisfiski vill stjórn Eskju hf. koma eftirfarandi á framfæri:
Fullyrðingar og framkoma starfsmanns Eskju hf. í þættinum endurspeglar á engan hátt viðhorf félagsins né eigenda þess. Sænsku sjónvarpsmennirnir nálguðust félagið á fölskum forsendum og viðkomandi starfsmaður var fenginn til viðtals á eigin ábyrgð. Markmið Svíanna var að fjalla um venjulegan mann í íslensku sjávarþorpi en ekki átti að nota framlag hans í því samhengi sem síðar varð ljóst. Harmar stjórn Eskju hf. þessi vinnubrögð sænska sjónvarpsfólksins við gerð þáttarins.
Stjórn Eskju hf. gerir auk þess fyrirvara um framsetningu þáttarins varðandi veiðar fyrirtækisins á uppsjávarfiski og viðskipti félagsins við norska fóðurframleiðendur.
Eskja hf. er sjávarútvegsfyrirtæki á Eskifirði með 70 starfsmenn. Félagið gerir út tvö uppsjávarveiðiskip og starfrækir hágæða fiskimjölsverksmiðju. Eskja hf. er aðili að yfirlýsingu sjávarútvegsráðuneytisins um ábyrgar fiskveiðar á Íslandsmiðum og hagar starfsemi sinni í samræmi við það.