Færri söluaðilar komust að en vildu á Jólaköttinn 2024
Illu heilli komust ekki allir þeir kynningar- og söluaðilar að með pláss á stærsta jólamarkaði Austurlands, Jólakettinum, sem fram fer á morgun laugardag. Að þessu sinni er markaðurinn í tveimur byggingum.
Jólakötturinn hefur markað djúp spor í austfirskt viðburðadagatal desembermánaðar en þeim markaði var komið á laggirnar á sínum tíma af hálfu skógabænda á Austurlandi með dyggum stuðningi þess sem áður var Skógræktin en er nú þekkt sem Land og skógur.
Markaðurinn verður að þessu sinni haldin aftur í því sem nú heitir Landsnetshúsið, þar sem Vaskur var áður til húsa áður en þar brann allt til kaldra kola, en þó með þeim breytingum að skógarbændur sjálfir, sem selja jólatré og varning annan á markaðnum koma sér fyrir í húsnæði Dekkjahallarinnar hinu megin Fagradalsbrautarinnar.
Að sögn Þórs Þorfinnssonar, eins skipuleggjenda, er hópur fólks nú að undirbúa markaðinn stóra en þar verða milli 50 og 55 söluaðilar auk skógarbændanna sjálfra í Dekkjahöllinni.
„Allt gengur þetta vel og við náum vel að opna fyrir almenning klukkan ellefu í fyrramálið. Með tilliti til þrengsla vegna mannfjölda í fyrra þá tókum við því fegins hendi þegar okkur bauðst að nýta húsnæði Dekkjahallarinnar líka og færum því trjásöluhlutann yfir í það húsnæði sem er örskammt frá Landsnetshúsinu svo það verður rýmra um mannskapinn. Það reyndist þó ekki duga til að koma öllum söluaðilum fyrir sem vildu sem er sannarlega lúxusvandamál og við búin að hugsa það lengi hvernig við ráðum bót á því til lengri tíma litið.“
Jólakattarmarkaðurinn mun standa frá klukkan 11 í fyrramálið til klukkan 16 síðdegis. Þar verða til sölu fjöldinn allur af vörum frá fjölmörgum smærri framleiðendum austanlands.