Fagna Fjarðaborg, menningunni og frumkvöðlunum

Borgfirðingar halda á morgun upp á 50 ára afmæli félagsheimilisins Fjarðarborgar. Ásgrímur Ingi Arngrímsson er einn þeirra sem standa að samkomunni en hann er jafngamall húsinu og hefur verið samferða því í ýmsum hlutverkum.

„Við erum ekki bara að fagna húsinu heldur þeirri menningu sem hefur blómstrað í því. Hún hefur vitaskuld þróast í áranna rás. Í þessa tíma voru söngskemmtanir og sterk leikhúshefð á Borgarfirði. Áður var líka dansað alls staðar þar sem mögulegt var.

Árið 1984 byrjaði kvenfélagið að halda stóran dansleik um verslunarmannahelgi. Þeir voru svo stórir að annað eins hafði varla sést. Í kringum það var smíðuð heil hátíð, Álfaborgarsjens, því fólk kom alls staðar að.

Ég held að fá hús hafi hýst jafn fjölbreytta menningarstarfsemi, fyrir utan að hýsa grunnskólann í um 30 ár,“ segir Ásgrímur Ingi.

Félagasamtök byggðu Fjarðarborg


Fjarðarborg var formlega vígð 30. júní árið 1973. Starfsemi hófst hins vegar í húsinu þegar barnaskólinn flutti inn á aðra hæð þess árið 1967 og var þar fram undir aldamót. Ákvörðun um húsið var tekin árið 1947 en bygging þess hófst tíu árum síðar. Það var því alls sextán ár í byggingu.

„Byggingin var knúin áfram af stórri hugsjón um að skapa aðstöðu þar sem menningin gæti blómstrað. Við erum núna í og með að heiðra þá óeigingjörnu samfélagshugsjón sem bjó að baki. Fólk vann mikið við bygginguna í sjálfboðavinnu. Það var þrekvirki að koma húsinu upp því grunnurinn var handgrafinn og megnið af steypunni handhrært.“

Það var Ungmennafélag Borgarfjarðar sem leiddi bygginguna en Verkamannafélag Borgarfjarðar, Kvenfélag Borgarfjarðar auk sveitarfélagsins lögðu sitt að mörkum. „Þessi félög voru í stanslausum fjáröflunum allan framkvæmdatímann. Þetta var mikil bygging fyrir lítið samfélag. Það hefur verið gríðarleg bjartsýni og áræðni að ráðast í svona framkvæmdir í samfélagi þar sem ríktu alls engar allsnægtir.“

Afmæli félagsheimilisins verður fagnað annað kvöld með kótelettuhlaðborði, sögu- og myndasýningu en síðan tónlistarveislu með góðvinum Fjarðarborgar. Meðal þeirra sem þar koma fram eru Jón Ingi Arngrímsson og Valgeir Skúlason, Jónas Sigurðsson, Magni, Aldís Fjóla, The Hafthors, Tinna Jóhanna Magnúsdóttir og Ármann Einarsson.

Fylgst að í 50 ár


Sjálfur er Ásgrímur Ingi einnig að fagna 50 ára afmæli sínu um þessar mundir. „Við höfum fylgst að, ég og Fjarðarborg. Ég var hér 10 ár í skóla, kenndi í tvo vetur og hef rekið húsið með vinum mínum í 15 sumur. Þar fyrir utan eru öll mannamótin sem ég hef sótt. Ég hef aðeins misst af einu þorrablóti síðan ég var 14 ára.

Mínar fyrstu minningar úr húsinu eru af leiksýningum, bíósýningum og barnasamkomum. Ég hef verið meira og minna allt mitt líf í Fjarðarborg.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.