Fagnar stórafmæli með gítartónleikum

Gítarleikarinn og Seyðfirðingurinn Guðlaugur Kristinn Óttarsson fagnar í dag 70 ára afmæli sínu með að spila úrval gítarverka og fjalla um fyrirbrigði, sem hann kallar hulduljós og hefur rannsakað á síðustu árum, á Seyðisfirði í dag.

Guðlaugur Kristinn varð þekktastur fyrir gítarleik sinn með hljómsveitunum Þey og Kukli sem fóru fyrir íslensku nýbylgjunni í byrjun níunda áratugarins. Í báðum sveitunum starfaði hann með Sigtryggi Baldurssyni og í Kukli með fleiri liðsmönnum Sykurmolanna, meðal annars Björk Guðmundsdóttur.

Guðlaugur spilaði síðan inn á fjölda platna með öðrum listamönnum, meðal annars Bubba og Megasi áður en hann fór að senda frá sér eigin tónlist. Hún er töluvert tilraunakennd, enda smíðaði Guðlaugur Kristinn eigin rafmagnshljóðfæri, að því er fram kemur í yfirliti um feril hans á Glatkistunni.

Guðlaugur hefur við hlið tónlistarinnar starfað sem vísindamaður, rannsakað, birt og kennt efni um stærðfræði og eðlisfræði. Afmælisveislan sem hann býður til í dag er sambland af þessum áhugasviðum hans því þema hennar er „Hulduljós.“

Það er fyrirbrigði sem Guðlaugur hefur rannsakað eftir að hafa uppgötvað það á Seyðisfirði árið 2018. Hann segir það ekki mælanlegt með neinum tækjum heldur skynji lifandi dýr það því þau hýsi ljósið sem síðan hverfi þegar þau deyi. Ljósið, eða meðvitund dýrsins, lifi hins vegar áfram eftir dauðann sem óstaðbundin og óefnisleg vera í okkar venjulega rými.

Guðlaugur ætlar að rekja tónlistarferil sinn og mæta með gítarana til að spila tónlist „úr fortíð, nútíð og framtíð“ í Skaftfelli bistro frá klukkan 18:00 í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar